Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

14 tímar í brottför....er í niðurtalningu.

Tikk takk, tikk takk.... guð hvað tíminn líður hægt, ég er með rörsýn á klukkuna, reyni hvað ég get til að dreifa huganum, en tíminn silast áfram,  tikk takk........

 Skellti mér í bíó í gær með Jakub skólabróa, ákváðum að fara í nýtt sýningarhús sem var opnað á dögunum, og það vantar ekki að það er stórt. Allt sem er byggt þessa dagana í Lathi er stórt. Þeir opnuðu enn eitt mollið fyrir viku síðan. 3 stórar byggingar sem tengdar eru saman með löngum göngum og auðvitað tókst mér að villast þar, ráfaði um í klukkutíma og vissi aldrei hvar ég var stödd....Finnar elska moll, geta hangið þar heilu og hálfu dagana.

En aftur að bíóinu, þegar gengið er inn á fyrstu hæð  blasir við miðasala og tvö stór kaffihús, jú jú mikil ósköp það er hægt að setjast niður og fá sér kaffi og meðððí fyrir sýningu. Við hinsvegar vorum í smá vandræðum með að finna salinn og eftir smá leit komust við að því að salurinn okkar var uppá fjórðu hæð!!!  W00t Bíóið er semsagt á fjórum hæðum og cirka 4-5 salir á hverri hæð, nú við sáum lyftu og brunuðum auðvitað með henni upp, þá hófst leit að nammisölu því það bara tilheyrir að fá sér popp til að maula með sýningu. Enginn fannst nammisalan svo ég vatt mér að næsta manni og spurði um poppdeildina, komst að því að hún var staðsett á ANNARI hæðinni, aftur tókum við lyftu niður á aðra hæð, fundum nammibar og poppdeild, þar var sjálfsafgreiðsla, poppi var snyrtilega raðað í ferköntuð box sem stóðu inn í kókkælum??? við náðum okkur í það sem við vorum að leita að og tókum okkur svo stöðu í röðinni. Eftir smá bið gátum við brunað aftur upp með lyftu... andlitið datt hins vegar af mér þegar ég gekk inn í salinn, datt í hug salurinn í háskólabíó... ok smá ýkjur en stór var hann, og sætin eins og hægindastólar frá Húsgagnahöllinni. Myndin var hundleiðinleg en í þetta skiptið var mér sama, því ég var ekki að horfa á klukkuna á meðan.

En nú þarf ég að fara í skólann, kveðja og skila af mér lyklum. Þetta verður síðasta blogg frá Finnlandi..sniff. og síðasti dagur með húsráðanda. Annars sé ég ekki að hún lifi lengi blessunin. Hún fór til læknis í síðustu viku því hún er alltaf svo þreytt. Fékk niðurstöður úr rannsókn stuttu síðar, er með hættulega háan blóðþrýsting, bólgu í lifur, sykursýki og eitthvað fleira. Læknir spurði hvort hún drykki mikið, en hún vildi nú ekki kannast við það. Já en, sagði ég, þú drekkur allavega eina rauðvín á hverju kvöldi og allavega 2 bjóra í morgunmat, fuss heyrðist í henni, ég var ekkert að segja lækninum það, hann bannar mér að drekka...

 Well læt heyra frá mér eftir nokkra daga, í millitíðnni verð ég búinn að þvælast frá Lathi til Helsingi, frá Helsingi til svíþjóðar, frá Svíþjóð til Keflavíkur, frá Keflavík til Reykjavíkur, frá Reykjavík til Akureyrar kyssa húsband, börn, barnabörn, aðra vini og vandamenn, síjúgæs.Heart

 

 

 


Sveiflótt geð......

Ég hef verið í meyru skapi síðan í gær, er ofurviðkvæm. Finnst ég geta grátið af minnsta tilefni og hef nokkrum sinnum þurft að kyngja ótt og títt til að halda aftur af tárum. Ég var smá stund að átta mig á ástæðunni, en málið er að ég á ekki eftir að vera nema 3 daga til viðbótar í Finnlandi.

En svona er ég þegar ég hef  hef dvalið einhver tíma á sama stað, ég tengist stöðum og fólki  þó á mismunandi hátt, fer eftir aðstæðum hverju sinni.

Ég hef orðið ríkari af dvöl minni hérna. Ég hef vaxið sem listamaður og  sem einstaklingur. Sjóndeildarhringurinn er stærri og mér finnst ég víðsýnni. Takmarki ferðarinnar er náð.  Ég á eftir að sakna margs en mig hlakkar líka brjálæðislega til að koma heim og hitta fólkið mitt. Ég sveiflast frá því að þurfa skæla af trega upp í að tryllast úr kæti yfir heimferð.

Ég á eftir að fá annað svona viðkvæmni kast og það verður um áramót. Ég hef alltaf verið þannig. Þegar klukkan slær tólf á gamlársdag, felli ég tár, og í mér togast á allskonar tilfinningar, tilhlökkun, gleði, tregi, sorg  og stundum eftirsjá. Ég renni yfir árið og stend sjálfri mér reiknisskil.

Það sem hinsvegar gleður mig mest er að ég vinn einhverskonar sigra á sjálfri mér ár frá ári, stundum eru þeir varla greinanlegir en samt..... ég potast þetta áfram. Ég uppgötvaði blessunarlega fyrir mjög löngu síðan að ég  sjálf er minn  helsti óvinur, mín helsta hindrun hvað varðar vellíðan, hamingju og þroska. Erfiðustu barátturnar hef ég þurft að heyja við sjálfa mig  vegna eigin vankanta og að sama skapi hafa mínir stærstu sigrar verið fólgnir í því að ná betri tökum á eigin þankagangi, hugsunum og tilfinningum.

Ég hef þó lært að sættast við mig ár frá ári og síðustu árin fundið  til væntumþykju til sjálfrar mín. Einhverjum kann að þykja það skrítið,  en fyrir mér er það rökrétt og eðlilegt, það er jú ég sem þarf að lifa með sjálfri mér allan sólarhringinn, alltaf. Þá er eins gott að líka sambúðin. Sáttin kemur til af því að styttra bil er á milli þess sem ég vil vera og þess sem ég er.

En elskurnar er farinn í skólann, enda allra síðustu forvöð að klára verkefnin.

Overandát. 

 


Hlátur á Japönsku, og stíbbar í steikarfati....

Ég var svo þreytt þegar ég kom heim úr skólanum í kvöld að ég bókstaflega skjögraði inn úr dyrunum. það eru töluvert mörg verkefni sem ég þarf að klára á næstu dögum og allt er þetta frekar seinunnið, þannig að vinnudagarnir verða ansi langir næstu daga

. Ég var meira að segja svo þreytt að ég kippti mér ekki upp við að sjá húsráðanda á brókinni við að umpotta blómum og auðséð var að hún notaði brókina sem handklæði,Whistling mold var út um öll gólf og stígvélin hennar lágu ofan í steikarfati (uppá eldhúsbekk) sem hafði ekki verið þrifið eftir síðustu notkun.

Ég skjögraði sem leið lá inn í eldhús og orkaði ekki að elda neitt nema bollasúpu. Þar sem ég sötra drykkinn í róleg heitum vindur húsráðandi sér að mér og spyr skrækróma: ertu með kaffi? nebb segi ég og hristi hausinn svona til að leggja áherslu á neiið, heita bollasúpu. Þá andvarpar hún djúpt og mæðulega og segir: nú jæja ég verð þá víst bara að fá mér bjór.

He he W00t það er langt síðan ég hef heyrt svona góða afsökun fyrir því að fá sér í tánna.

Hafið þið annars heyrt Japana hlæja? Ef ekki þá get ég upplýst ykkur um það að þeir hlæja með japönskum hreim, það er alveg ótrúlega skemmtilegt og krúttlegt.

Þannig var nefnilega að í tíma í dag var ég að lýsa með miklum tilburðum fólksmergðinni í Helsingi, að ganga þar um götur er líkt og að vera staddur í kringlunni á Þorláksmessudag, semsagt ekki þverfótað fyrir fólki. En í því sem ég er að tjá mig um þetta, heyri ég þennan fyndna japanska hlátur, ég var smá stund að kveikja, en fattaði svo hver var að hlæja og hvers vegna,  ég leit við, jú  það passaði, tístið kom frá Japanskri konu sem er gestalistamaður í skólanum og hún er frá  Tokyo!!!!  Þar er það víst þannig að þú hreyfir þig ekki út á götu á háannatíma  nema nokkrir hreyfist með í leiðinni, fólksfjöldinn er þvílíkur, svo auðvitað þótti henni þessar lýsingar mínar skrítnar, lengi vel mátti greina þetta tíst og svo tautaði hún fyrir munni sér, thí hí thí hí many people in Helsingi... thí hí....

Mikið svakalega sem ég er þakklát fyrir allt þetta pláss sem maður hefur á litla Íslandi, ég yrði fljótt klikkuð á því að vera í slíku fjölmenni eins og er í Japan, ýmindið ykkur að að strjúkast utan í einhvern í hverju skrefi... og finna andardrátt einhvers ókunnugs aftan á hálsinum. úff ég fæ köfnunartilfinningu við tilhugsunina.

Já og svo eru bara 8 dagar í heimför, gvöð hvað ég hlakka orðið til, 

en þangað til næst, ble ble. 


Listmenning eykur heilbrigði......

Alltaf breytast hjá mér plönin... það varð ekkert úr ferð til Eistlands, sáum fram á að hafa ekki nægan tíma til að klára þau verkefni sem bíða okkar í skólanum, svo í stað þess fórum við til Helsingi og Espoo og eyddum heilum degi í að vafra á söfn sem var alveg frábært.

Byrjuðum reyndar á því að versla oggupons og fundum svo útúr því hvernig við kæmust til Espoo á safn sem er vel þekkt og heitir Emma ( Espoo Museum of modern Art) Þetta safn er ótrúlega stórt, einir 5000 fermetrar og hýsir list allt frá byrjun 19 aldar til contemporary art auk þess að sinna viðhaldi, rannsóknum og gefa út lærðar greinar um efnið. Safnið á sjálft yfir 2500 verk sem eru frá mörgum tímaskeiðum.

Meðal sýninga í Emma voru verk eftir Salvador Dalí og ógrynni af ljósmyndum af honum, konu hans og vinum auk þess sem sýnd var stuttmynd eftir hann(1929) og svo önnur sem Disney lét gera (2003) Hans stuttmynd var alveg frábær í einu orði sagt og sérstaklega ef horft er til þess tíma sem hún var gerð, og auðvitað var hún í hans anda, svolítið eins og málverkin hans...súrrealísk.

Eftir 3ja tíma dvöl í þessu safni héldum við til baka til Helsingi og fórum á listasafnið þar sem heitir Kiasma, sem er ekki síðra en Emma, þar var verið að sýna verk sem bæði unnu og tóku þátt í Carnegie Art Award 2008, Ég varð fyrir svo miklum áhrifum á þeirri sýningu að ég fékk örann hjartslátt og fór í einhverskonar sæluvímu yfir þessu öllu saman. Á þessari sýningu voru sýnd einhver þau bestu vídeóverk sem ég hef augum litið. Ég hreinlega grét yfir einni myndinni, mig skortir lýsingarorð til að lýsa þessu verkum svo vel sé.

Inni á safninu var varla þverfótað fyrir fólki, samt var þetta ekki opnun heldur virðist sem fólk hafi almennt áhuga á list, sem er auðvitað frábært. Ég náði mér í kynningarbækling og rakst þar á athyglisvert viðtal sem Stjórnandi Kiasmasafnsins tók við Heilbrigðisráðherra Finnlands. Þar talar hann um þau miklu áhrif sem list hefur á heilbrigði manna, tekur dæmi máli sínu til stuðnings.

í Svíþjóð var gerð rannsókn af Karolínska sjúkrahúsinu í Stockholmi árið 2001 sem sýnir að þeir sem eru virkir í menningarlegum atburðum nota heilbrigðisþjónustuna 57% minna heldur en þeir sem engan þátt sýna listviðburðum. Hann segir einnig: Ég er sérstaklega hugfanginn af þeirri staðreynd að hægt sé að mæla áhrif menningarlegrar upplifunar á okkur mannfólkið, Endorfín magn í líkamanum mælist mun meira eftir skemmtilega og upplífgandi listsýningar, þess vegna er fólk ánægt eftir góðan konsert eða góða listsýningu.

Þetta viðhorf skýrir, að hluta til allavega, hvers vegna Finnar gera svona vel við þá nemendur sem leggja stund á einhverskonar list. Þeir fá laun frá ríkinu á meðan þeir læra, og efnisgjöld eru greidd að hluta, afsláttur í lestar og rútur og frítt inn á mörg söfn. Og það sem meira er Finnar eru stoltir af því að gera nemendum sem auðveldast að læra.

Það rifjast líka upp fyrir mér þáttur sem ég sá í sjónvarpinu fyrir alllöngu síðan um áhrif menningar í Noregi. Þar voru reistar virkjanir og verksmiðjur víða um land, góð laun voru í boði og ódýrt húsnæði fyrir fjölskyldur, í stuttu máli sagt, þá lögðust margar þessara virkjana og verksmiðja niður því fólk þreifst ekki þar, þrátt fyrir góð laun, sem segir mér enn og aftur að fleira þarf til enn húsnæði og góð laun svo mannfólkið geti dafnað og verið hamingjusamt.

Svo er bara að bíða eftir því að Íslendingar átti sig á þessu.............


Finnsk brauð,mmmmm...........og neysluæði samlanda minna.

 Mikið lifandis sem Finnar baka góð brauð, hef bara hvergi bragðað annað eins. Þó þeir geti ekki stært sig af frábærum matarkúltur eða matargerð þá gera þeir heimsins bestu brauð. 

Þetta er algjörlega ólíkt því sem maður á að venjast að heiman. Eftir því sem ég best veit er sala á hvítum brauðum á Íslandi, enn yfir 50% af allri brauðsölu Shocking Finnar nota mikið af kornum og rúg í sín brauð og nota helst ekki ger heldur soja eða súrdeig, enda eru brauðin hér matarmikil, saðsöm og bragðgóð.

En þar sem ég geri ráð fyrir því að bakarar íslands muni halda áfram að baka loftkennd hvít, næringarlítil brauð, varð ég mér úti um brauðuppskriftir hjá húsráðanda og ætla baka í fínu brauðvélinni minni þegar ég kem heim. mmmmm ilmandi nýtt brauð á hverjum morgni.

Var annars að velta því fyrir mér að brátt hefst verslunar æðið heima á klakanum. Hversu mörg heimili skyldu steypa sér í skuldir vegna jólahátíðar? Hvað er þetta sem veldur því að fólk telur sig vanta allt á milli himins og jarðar? Er verið að reyna fylla andlegt tóm með efnislegum hlutum? En það er bara ekki hægt, það er eins og að reyna fylla botnlausa tunnu. Það er engu líkara enn að sjálfsvirðing Íslendinga sé fólgin í  því að geta keypt allt það nýjasta og flottasta. Ég hef heldur aldrei skilið þann mælikvarða að mæla velgengi út frá eignum. Svo er fólk að drepast úr kvíða, streitu og of mikilli vinnu eftir þessa hátíð ljóss og friðar, því það er svo erfitt að borga herlegheitin. 

Mér varð hugsað til þess sem framkvæmdarstjóri auglýsingastofu sagði eitt sinn við mig, hann sagði: margar auglýsingastofur skipta markhópum eftir lit. Gefum okkur að ríka fólkið sé í bláum hóp, efnalitlir einstaklingar, aldraðir, öryrkjar í bleikum hóp, vel stæðir í grænum og meðaljónin í gulum. Við fáum á borð til okkar verkefni, að kynna og markaðssetja  ákveðna vöru. Ef varan er ný, hvaða hópur haldið þá að sé ginkeyptastur fyrir vörunni? Jú nefnilega guli hópurinn, sá hópur sem gerir varla meira en að skrimta!!

Hummmm, I wonder why....

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Og enn meira af húsráðanda... hehe.

Ég má til með að segja frá nýjustu afrekum húsráðanda svona rétt áður en ég leggst á koddann, annars verð ég hlæjandi og flissandi í alla nótt.

Ég fór niður í eldhús fyrr í kvöld, og á eldhúsbekknum stendur hárautt glænýtt útvarpstæki.

Ég segi við húsráðanda, neiiiiii sko,  bara ný fjárfesting.

Húsráðandi verður skrítin á svip en segir svo eftir smá stund: neeejaaassskoooo, ég stal þessu!

Ha????? stalstu þessu, hvað meinarðu?Shocking

Jú ég fór heim til innbrotsþjófsins sem rændi frá mér veskinu um daginn, bauð sjálfri mér inn, tók tækið sem tryggingu og skildi eftir miða til þjófs um það að hann fengi tækið ef ég fengi veskið.Bandit

AAAAHAHAHAHA, ég verð ekki eldriLoL

Hefur ekkert hvarflað að þér að kæra, hikstaði ég á milli hláturroka.

Jú en þetta er miklu betri lexía sagði húsráðandi.

Ekki það, að ég vildi ekki hafa hana á móti mér, þó hún sé ekki nema meter og rakvélablað á hæð, lögblind og megakrútt, þá hræðist hún ekki neitt, og lætur sko í sér heyra ef henni er misboðið.

HAHAHA, hún rændi þjófinn......... 


Ógnar langur fattari.......

Stundum er ég eins og enginn sé heima.Shocking Þið vitið, óendanlega lengi að tengja.

Fór í skólann að venju í morgun og fann líka þennan nístandi kulda læðast um mig, hugsaði með mér, jáhá það er þá svona sem Finnskur vetur er, frostið nagar mann inn að beini.

Þurfti svo að erindast nokkrar ferðir til og frá skóla, týpískt,  að velja daginn til að útrétta þegar kuldinn er mig lifandi að drepa.

Hef kvartað við alla í dag yfir frosthörkunni, hristi hausinn og hvaðeina yfir djörfung og dug fólksins að lifa af þvílíka árstíð og fengið dræmar undirtektir.

Jú hugsaði ég, Finnar eru  auðvitað vanir allt að 25-30 gráðu frosti. Kippa sér ekki upp við 10 í mínus.

Kom heim og leit á mælinn svo ég gæti nú sagt fréttir af ógnarkuldum í Finnlandi.

Mælir sýndi -1 gráðu, og þá og ekki fyrr en þá gerði ég mér grein fyrir að ég væri með hita.Whistling

Er það nema von að fólk hafi horft á mig skilningsvana þegar ég talaði um vetrarhörku Landsins. 


Af skoðunum húsráðanda..... DHÖÖÖ.

Ég var á leiðinni í háttinn í gær þegar húsráðandi náði að króa mig af og var greinilega í kjaftastuði ( það þýðir að hálf flaska af rauðvíni og nokkrir bjórar voru innbyrtir um kvöldið )

Ég reyni að forða mér á klóið en hún eltir og stendur bara í gættinni. Ég pissa með hana sem áhorfanda.

Fer því næst út í dyr, vitandi það að hún er bölvuð kuldakreista, minns þykist ætla horfa á stjörnurnar, hún eltir, grípur kápu í leiðinni, ég sný við fer inn og upp á efri hæð, geispa heil ósköp lít á úrið, hún brosir bara meira. Ég gefst upp sest á rúmið og hún við hliðina. Whistling

Hún fór að segja mér frá einni af ferðum sínum til Rússlands. Í umræddri ferð átti hún að mæta á fyrirlestur snemma á laugardagsmorgni. En kvöldinu áður var slegið upp veislu með tilheyrandi matar og vínföngum....og  ómældu vodka.

Hún fékk stjörnur í augun þegar hún lýsti fyrir mér gestrisni Rússanna, þeir kynnu sko að halda veislur.

Jáhá  sagði ég, og skildi en ekki hvað var öðruvísi við þeirra gestrisni heldur en annarra. Jú sagði hún,  þeir passa upp á að maður drekki eitt vatnsglas á móti hverju vínglasi svo er manni boðið vín morguninn eftir.... þeir passa líka uppá að maður drekki ekki of mikið á stuttum tíma.

Allt annað heldur en hér í Finnlandi sagði hún, með vanþóknunartón í röddinni, hér fer maður í veislur og fínerí og það er enginn sem passar uppá mann, svo áður en maður veit af, eru allir orðnir alltof fullir. Crying

Ha sagði ég skilningsvana, á Íslandi heitir þetta  nú bara að vera meðvirkur. Þar er gengið út frá því að hver og einn beri ábyrgð á því sem hann lætur ofan í sig.

Fussss heyrðist í húsráðanda... Íslendingar eru lítil þjóð, þeir eiga eftir að uppgötva að þetta er sönn gestrisni. Það á að  passa hvað fer ofan í gestina.

Ég ákvað í augnablik...... en aðeins í augnablik, að mótmæla, en úfff. 

 


Huomenta... vinir og vandamenn.. ég er komin aftur.

Well..... þá er ég komin aftur eftir smá hlé. Við erum óðum að hressast eftir atburði síðustu daga og okkar líf er að komast í réttar skorður. Ég nánast bý í skólanum þessa dagana enda næg verkefnin sem ég þarf að klára og einungis 3 vikur eftir af dvölinni.

Næsta fimmtudagskvöld ætla ég með skólasystur minni til Eistlands í 4 daga ferð, hlakka ógó til.... hún var að afsaka fyrir mér hvað það væri dýrt að fara þangað frá Finnlandi. Við förum með stórri ferju og miðinn kostar heilar 2000 krónur  W00t HAAA maður kemst frá Reykjavík áleiðis upp í Hvalfjörð fyrir þann pening, svo ég borga þetta með glöðu geði... reyndi jafnframt að útskýra fyrir henni að þetta þætti ekki dýrt fargjald á Íslandi, minnti hana á að Ísland væri eyja og ég og aðrir sem ferðuðust til annarra landa þyrftum að borga margfalt þetta verð.

Annars er ég að verða háð því að fara í sauna, og  sko, sauna er ekki bara sauna... alvöru saunabað er athöfn sem krefst tíma og natni, algengt er að heilu fjölskyldurnar hittist á laugardagskvöldi eða eftirmiðdegi og fari saman í gegnum þessa athöfn,og hér fer engin í rafmagnssauna nema tilneyddur enda munurinn með ólíkindum. Hér í húsinu förum við í viðarsauna..... alger dásemd. Fyrir mig virkar þetta eins og nokkrir tímar í sjúkraþjálfun, fyrir nú utan það hvað ég næ að vinda ofan af mér stressinu og þreytunni. Það stendur til að fara í alvöru saunabað í Eistlandi og þar er maður barinn með trjágreinum og laufi og svo skrúbbar einhver góðhjartaður á manni bakið með grófum bursta Whistling ......mmmmmm

Svo er nú meiningin að þræða öll helstu Listasöfnin og fara á tónleika, semsagt nóg að gera. Hlakka mikið til að fara skoða gamla bæjarhlutann í Tallinn skilst að þar sé mjög fallegt, var að velta fyrir mér hvernig þetta væri fyrir útlendinga sem heimsækja Ísland að sjá allar þessar nýbyggingar..... við eigum því miður ekki mikið til af gömlum fallegum byggingum, synd...

En hvað um það má ekki vera að því að slóra við tölvuna, nú er hver mínúta nýtt til hins ýtrasta.

Ble ble.... og muna elskurnar að kvitta þegar þið kíkið á mig.Bandit


Erfðiður dagur, og Krumma sorgmædd.

Það var skrítið að koma í skólann í morgun. Nemendur og kennarar gengu um álútir og sumir með rauða hvarma. Fólk talaði í hálfum hljóðum og sumir ekki neitt. Það eru margir í sjokki eftir atburði gærdagsins.

Þegar ég kom í vinnustofuna mína lá orðsending frá skólayfirvöldum á borðinu. Þar voru atburðir raktir, og forsaga þess drengs sem framdi þennan voðaverknað og samhliða  var boðið uppá viðtal fyrir þá sem töldu sig þurfa þess með. Klukkan eitt var svo haldin kyrrðarstund í fyrirlestrasal skólans til að minnast látinna, þar var búið að kveikja á kertum og róleg tónlist var spiluð. Margir innan skólans þekkja til þar sem þessi voðaatburður átti sér stað og einhverjir eru tengdir aðstandendum fórnarlamba. Enda er þessi staður ekki nema í hálftíma fjarlægð frá Lathi.

Samkvæmt bréfinu sem ég fékk var þessi drengur afburðarnemandi og vel greindur. Síðustu vikur og mánuði sýndi hann samt þannig hegðun og talaði á þann hátt  að fólk sem hann var í sambandi við var farið að taka eftir því að það væri ekki allt með felldu.

Í fréttum er verið að tala um skólakerfið og hvernig þetta brautarkerfi/ kúrsakerfi geri það að verkum að erfitt er fyrir kennara að fylgjast með nemendum. Það er mun auðveldara þar sem bekkjarkerfi er í notkun,  mér finnst mikið til í því. Þessi drengur þráði að tilheyra einhverjum hópi, að finna að ætti samleið með fólki, að eiga vini.

Í brautarkerfi er því þannig farið að sami nemandi getur verið með ákveðnum einstaklingum í einu fagi 2-3 í viku og svo aðra tíma með allt öðru fólki, það gefur auga leið að það er miklu erfiðara að eignast vini og finna öryggistilfinningu við þannig aðstæður.

Umræður meðal starfsfólks skólans í dag snérust um mikilvægi þess að veita nemendum athygli og að taka mark á þeim merkjum sem oft eru til staðar áður en slæmir hlutir eiga sér stað. Kennarar sögðu mér t.d. frá því að fyrir u.þ.b. 4 árum síðan var skúringakona í mínum skóla að þrífa borð hjá einum nemanda og rak þá augun í pappíra á borðinu sem henni fannst í hæsta máta óhuggulegir og óeðlilegir, bæði var um að ræða texta og teikningar. Þar var lýst samskonar aðgerðum og áttu sér stað í gær. skúringakonan lét bæði lögreglu og skólayfirvöld vita og var viðkomandi nemanda komið til hjálpar. Ég fékk óþægindatilfinningu við að heyra þetta, svona hryllingur eins og átti sér stað í gær gæti hafa gerst í mínum skóla.

Í morgun þegar ég og  Kristí  ( býr í sama húsi og ég)  vorum að fara í skólann, fann hún hvergi skóna sína, við snérum húsinu á hvolf en allt kom fyrir ekki, skórnir höfðu gufað upp! Til  allrar lukku var hún  með annað par. Svo þegar ég kem heim í dag segir húsráðandi mér það að rán hafi verið framið í húsinu okkar um nóttina. Einhverjum verðmætum var stolið  þar á meðal skónum, og veski húsráðanda með öllum hennar kortum, skilríkjum og peningum.  Húsráðandi hringdi í lögreglu og í ljós kom að kortin voru notuð í stórmarkaði hér í grenndinni. Hún veit hver það var sem braust inn, því sá aðili hefur gert það margsinnis áður. Húsið virðist vera vaktað og svo er látið til skarar skríða um leið og allir fara í ból. Við nánari athugun sáum við líka að gengið hafði verið inn á grútskítugum skóm og víða mátti sjá trjálauf. Ég verð að viðurkenna að mér stendur orðið ekki á sama, er eiginlega hálf hrædd. Ég get ekki einu sinni læst að mér því það er ekki til lykill að hurðinni. 

Æ ég er sorgmædd í dag, finn áþreifanlega fyrir því hvað margir eru orðnir sjúkir. Svo hef ég mikið hugsað um elskulega frænda minn hann Hauk, sem lést fyrir árin síðan, ég veit að mamma hans, systir mín hefur átt erfiðan dag. Þann 10 nóvember ætlar dóttir mín og vinkona hennar að flytja lag í laugardalshöllinni, sem ég samdi og tileinkaði Hauki. Þetta eru ótrúlegar stelpur, það er ekki lítið að vera 15 ára og troða upp í fyrsta sinn og það í laugadalshöll.

Crying síjúgæs.

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband