Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008
Kæru bloggvinir
31.12.2008 | 13:42
aðrir vinir, ættingjar og öll þið sem kíkið á síðuna mína
Gleðileg ár og takk fyrir það sem er að líða,
megi nýtt ár færa okkur öllum farsæld og hamingju.
gangið hægt um gleðinnar dyr og sýnið hvort öðru kærleik.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Björgunar aðgerð....
29.12.2008 | 15:01
Húsaband ákvað að fara út í gærkveldi og viðra mig ( lesist sem hraður 45 mínútna göngutúr)
Ég hef nefnilega átt bágt í bumbunni...misskildi allar þessar veislur sem ég hef verið í..
leit á þetta sem mína síðustu kvöldmáltíð..
kannski er það allt krepputalið....verður einhver matur á landinu? Þarf ég að safna forða?? djók
Allavega hreyfing var nauðsyn eftir kyrrsetu og ofát síðustu daga.
Einhver stakk uppá að ég ætti að gera eins og yngra barnabarnið mitt hún Sonja Marý og vera á stanslausri hreyfingu...hætti snarlega við þegar ég sá barnið skríða í fyrsta sinn í fyrradag..
daman fór í spíkat og dró sig svo áfram á höndunum.....ég hélt ég væri búinn að sjá allar útgáfur af barnaskriði en þetta var alveg nýtt
heyrði svo í mömmunni í dag sem tilkynnti mér að Sonja hefði skipt um stíl.....jú jú, hún væri kominn í splitt og það sem meira væri hún færi um á ógnarhraða
sjáið þið mig ekki í anda leika þetta eftir, eins og freigáta á blússandi siglingu
allt fyrir hreyfinguna!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
veislur og mannfagnaðir....
27.12.2008 | 05:54
Síðustu dagar hafa verið yndislegir með allri sinni matar og svefn óreglu....þeir renna einhvern veginn saman í eitt og eina reglan hefur verið sú að frá Þorláksmessu hafa verið matarboð með einhverjum parti fjölskyldunnar eða vinum og þannig verður það fram yfir áramót. Það versta er að ég kann mér ekki hóf og ég hélt um tíma að ég væri komin með grindargliðnun af ofáti. nú þarf að draga fram hömlurnarbremsurnar og setja á sig gönguskóna ef ekki á illa að fara....
Á jóladag brenndum við í Ólafsfjörðinn og með fylgdu allar dætur, tengdasonur og barnabörn, þar var samankomin hópur af skyldmennum tengdamömmu sem hittist þar alltaf á jóladag og það er alltaf jafn gaman.
Í dag héldum við hjónin upp á 21 árs brúðkaupsafmæli hvorki meira né minna, ég er svo oft undrandi á því hvernig tíminn læðist að manni og framhjá án þess að maður verði hans var, allt í einu hafa hlutir gerst og mörg ár hafa liðið..... en það jákvæða er að þetta verður bara betra með árunum...ég er lánsöm kona....
barnabörnin komu í dag ásamt foreldrum og var sú eldri með bingó í farteskinu sem við gáfum henni í jólagjöf, hún veit fátt skemmtilegra en að öll fjölskyldan taki þátt í að spila saman, meira að segja langamma var höfð með og við skemmtum okkur konunglega. Afinn hafði dundað sér við að búa til litla pakka, nokkurs konar verðlaun svo þetta var enn skemmtilegra fyrir vikið....við enduðum svo stuðið ég og þessi 7 mánaða á því að spila á concó trommurnar mínar, við erum með upprennandi tónlistarkonu þar á ferð, hún bankar og trommar á allt sem hún finnur og stóra systir syngur og dansar með
Ég ætla að halda áfram að njóta þessa frís út í ystu æsar...þangað til næst
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
eitthvað til að brosa að ....
16.12.2008 | 00:55
Omid jalili er í miklu uppáhaldi hjá mér. Við tengjumst líka á fleiri en einn veg.....ég var stödd í húsi í kvöld þar sem hann barst í tal og þá kom í ljós að bróðir húsráðanda er góður vinur Omids, nú og svo höfum við sömu framtíðarsýn og tilheyrum sömu trúarbrögðum...Baháí trúnni.
hér er kappinn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Mannskepnan er skrítin skepna....
6.12.2008 | 01:16
Ég hef mikinn áhuga á mannlegri hegðun og satt best að segja er ég oft undrandi yfir henni.
Það er vel þekkt að þeir sem orðið hafa fyrir einhvers konar áföllum/sjokki eða alvarlegu mótlæti upplifa ýmis viðbrögð frá samfélaginu.
Það ræðst mikið af því hvort viðkomandi beri afleiðingarnar utan á sér hvernig viðbrögðin verða.
Þeir sem til dæmis þjást af hjartakvillum, sykursýki eða öðrum sjúkdómum, nú eða þeir sem verða fyrir utan að komandi áföllum eins og bruna, bílslysi eða t.d.jarðskjálftum er gjarnan sýnd meiri samúð og skilningur en þeim sem verða fyrir andlegum skaða eins og kynferðisofbeldi, andlegu ofbeldi, einelti og þess háttar.
Við áfellumst til dæmis ekki þann sem fær sjúkdóm eins og krabbamein, en ef viðkomandi þjáist af áfallastreituröskun,kvíða eða þunglyndi vegna andlegs áfalls þá finnst mörgum að viðkomandi eigi bara að reyna hrista þessa líðan af sér. Ef hann/hún reyni bara aaaaaðeins betur þá geti honum liði vel. Ef hann hugsi á jákvæðari nótunum þá verði allt gott, þetta sé bara allt í kollinum á honum.
En þetta er því miður ekki svona einfalt. Sá sem veikist af líkamlegum sjúkdómi getur ekki með jákvæðni læknað veikindin. Að sama skapi er ekki hægt að segja að fólk geti bara hrist af sér vanlíðanina, og hér á ég ekki við fólk sem leyfir sér að vera í krónískri fílu með tilheyrandi harðlífi, þeir einstaklingar geta með jákvæðni breytt líðan sinni. Ég er að tala um fólk sem þjáist vegna áfalla.
Það að njóta samúðar og skilnings frá samfélaginu getur skipt öllu máli varðandi það hvernig brotin einstaklingur nær að græða sig og verða heill.
Ýmsar rannsóknir hafa verið gerðar um þetta efni. Ein var t.d. þannig að háskólanemar voru beðnir um að horfa í gegnum one way mirror á meðan samstúdent sem var hinu megin við glerið var gefið raflost. Nemarnir voru beðnir um að fylgjast vel með tilfinningaviðbrögðum sem hann sýndi við þessum pyntingum. Þeir fylgdust með viðkomandi fá mörg raflost sem orsakaði miklar þjáningar.
Í byrjun komust nemarnir í uppnám yfir því að geta ekkert gert til að lina þjáningar þess sem fékk raflostið, en eftir því sem leið á, fóru þeir að ásaka þann sem fyrir því varð.
Rannsóknir sýna að við höfum tilhneigingu til að gera það sama við fólk sem upplifir endurtekin áföll/mótlæti, við förum að kenna viðkomandi um hvernig allt er hjá honum. Þessi tilhneiging er sérstaklega sterk gagnvart þolendum kynferðisofbeldis. Ef að brotið er minniháttar eða ekki nauðgun þá eiga þolendur að hrista þetta af sér, þetta sé nú ekki svo slæmt.
Það að sýna skilning og samúð getur gert kraftaverk hvað líðan annarra varðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)