veisla tiltekt og andleysi.....
21.1.2008 | 02:34
Á Akureyri hefur verið sannkölluð listaveisla um helgina. Mér telst til að ég hafi farið á einar 6 myndlistarsýningar auk tónleika sem haldnir voru í Populus Tremula, endaði svo skemmtilegt kvöld á kaffi karó þar sem ég hitti fullt af skemmtilegu fólki og bæði dansaði og söng.
Ég hef hins vegar oft verið hressari heldur en í dag, aldur og fyrri störf eru farin að segja til sín fyrir aðeins örfáum árum síðan gat ég dansað hálfa nóttina og verið hress daginn eftir en það er liðin tíð.
Ég afrekaði þó þrátt fyrir þreytu að klára flytja vinnustofu og druslaðist til að ganga frá því dóti í geymslu, þangað til ég fæ annað pláss og svo var skúrað, skrúbbað og þveginn þvottur og ég ógisssslega ánægð með mig.
Kannski er það þessi árstími og þetta myrkur sem gerir það að verkum að mig hrjáir stífla á öllum sviðum, kannski er rétt að kalla það andleysi......fæ engar hugljómanir hvorki blogglega eða myndlistarlega.
Ég vildi gjarnan vera í Chile hjá litla bróa, í blússandi sól og sumri en það er ekki ókeypis að fara þangað og svo er ég bundinn af skólanum, ekkert spennandi að fara á sumrin þá er vetur hjá honum með tilheyrandi rigningum.
Hann og fjölskylda hans fengu sláandi fréttir fyrr í vetur. Þannig var að tengdapabbi hans hvarf fyrir 20-25 árum síðan, talið var að yfirvöld ættu þátt í því, að hann hafi verið tekinn af lífi. Tengdamamma bróa baslaði ein áfram með heimili og börn og fékk einhverja smánarlús frá ríki í sárabætur fyrir eiginmanns missi.
Í vetur fengu þau hins vegar hringingu þar sem þeim var tilkynnt um það að hin löngu týndi faðir hafi fundist látin í kofa ekki mjög langt frá þar sem þau búa. Þið getið rétt ýmindað ykkur sjokkið., þau búin að syrgja öll þessi ár en svo var hann á lífi allan tímann og var meira að segja ekkert langt frá þeim....það lítur allt út fyrir að pabbinn hafi farið í felur og á einhvern dularfullan hátt dregið fram lífið í þessu kofaskrifli. Nú fara þau í gegnum allt sorgarferlið aftur. Ég get ekki ýmindað mér hvernig það væri að hafa svona ógnarstjórn, eins og var á þeim tíma.
Í þessum samanburði er gott að vera íslendingur.
farinn í háttinn.....
Athugasemdir
Ég öfunda norðanmenn af listaveislunni, sá dagskrána hjá Hlyni H og varð græn, það er gott að búa á Íslandi en það gæti verið betra. Kveðja norður
Fríða Eyland, 21.1.2008 kl. 02:59
Já við erum öfundsverð, það er alltaf eitthvað spennandi í gangi í listageiranum......og varðandi Íslandi þá er ég sammála, það er heilmargt sem þarf að laga......annars, gaman að heyra frá þér , stefni á að hitta þig í næstu suðurferð
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 21.1.2008 kl. 08:49
sól og sumar er í Chile núna.ummmmmmmmmmmmmmm
Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 21.1.2008 kl. 12:17
Ótrúlegar fréttir frá bróður þínum, skrítin þessi tilvera. Þið norðanmenn kunnið sko að skemmta ykkur. þið eruð listamenn af guðs náð.
Ásdís Sigurðardóttir, 21.1.2008 kl. 12:18
já sannarlega er tilveran oft ótrúleg og skrýtin.
Takk fyrir hlýja kveðju á síðunni minni Krumma mín
Guðrún Jóhannesdóttir, 21.1.2008 kl. 23:03
Þið listamennirnir á Akureyri takið sannarlega listaelítuna í nefið - það er allt að gerast hjá ykkur!
Þetta með tengdaföður bróður þíns er ótrúlegt, í það minnsta fyrir þau, en þetta gerist alltaf af og til að menn hverfi, taldir af og birtast síðan !
Edda Agnarsdóttir, 23.1.2008 kl. 00:41
Ótrúlegt þetta með tengdapabba bróður þíns! Þú ert ekki ein um að þjást af einhverskonar stíflum, vonandi lagast það með hækkandi sól
Huld S. Ringsted, 23.1.2008 kl. 22:03
Já stelpur mínar það er hálfs dags vinna að fylgja eftir öllu menningarlífi í bænum framundan er svo stofnun myndlistar félags á Ak þannig að blússandi kraftur er í listafólki og útkoman verður enn blómlegra menningarlíf.
Fjölskylda bróður míns er að láta rannsaka hvarf heimilisföðurins, spurning hvort hann hafi verið í haldi herforingjastjórnar með þeim afleiðingum að þeir hafi pínt og hrætt úr honum vitið. Enn rannsóknin sjálf getur orðið snúin því mörgum þarf að múta til samstarfs, spillingin er svo mikil. Reyndar sýnist mér Íslensk pólitík vera á sömu leið ,hvað spillingu og valdagræðgi varðar.
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 23.1.2008 kl. 22:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.