Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Krumman í ham....gaman gaman

Ég hef undanfarna daga verið eins og hamhleypa á eigin heimili. Er búinn að fara í hvern einasta skáp á heimilinu og henda, flokka og raða. Hef semsagt verið að fengsúa heimilið.

Ákvað að nota tímann fyrst ég er kominn í jólafrí, geri þetta annars yfirleitt á vorin og ekki nema annað hvert ár. En þar sem ég verð á kafi í verkefnum í skólanum strax eftir áramót  ákvað ég að drífa í þessu.

Ég hef nefnilega komist að því að þetta endurnýjar orku allra íbúa heimilisins. Hér á árum áður safnaði ég öllu, engu mátti henda enda var ég að drukkna í allskyns drasli, nú er ég í hinum öfgunum, hendi öllu sem ég er ekki að nota, losa mig við allan óþarfa W00t

Henti svo upp smá jólaljósum og bakaði biscotti, algjörlega ómissandi á aðventu með góðum freyðandi cappusino, er að smella í þvílíkan jólagírinn og svo er skemmtileg helgi framundan.

Erum að fara út að borða annað kvöld ásamt starfsfólki Ferðamálastofu og svo á laugardag ætla ég á listsýningar, hlakka ógó til. 

Já og svo má nú ekki gleyma að hér er mikill undirbúningur að fara í gang fyrir 20 ára brúðkaupsafmæli sem er 26 des. Húsband heimtar bleikt þema því hann var í bleikum gallabuxum þegar ég kynntist honum árið 1984. InLove ( í gamla daga eins og afkomendur segja)

Meiningin er að hafa opið hús og auðvitað eru allir vinir og vandamenn velkomnir.

Mikið svakalega sem það er gaman að vera til.Wizard


Stella í orlofi, eða ég í sauna.

Mér var snarlega kippt úr þessu angurværa skapi sem ég var í, í gær. Húsráðandi var nefnilega búin að stefna til sín hóp af vinkonum í sauna og mat.

Þær drukku hverja rauðvínsflöskuna á fætur annarri fyrir saunabaðið og voru hressar í samræmi við það . Ég og skólasystir mín ætluðum í sauna á eftir þeim en fengum engu um það ráðið, maður reynir ekki að tala um fyrir húsráðanda þegar hún hefur innbyrgt rauðvín í einhverju magni.

Ég sat í sakleysi mínu inní herbergi þegar hún kom "nakin"  auðvitað, stormandi inn og sagði að við yrðum að vera með þetta væri svo frábært. Tók svo í höndina á mér og dró mig niður.

Þar var mér skipað úr fötunum og  ýtt beint undir ískalda sturtu. Ég var rétt að ná andanum þegar mér var svipt inn í sauna og sett þar á bekk innan um allar vinkonurnar. Svo hófst húsráðandi handa við að ausa og ausa í pottinn og talaði stanslaust allan tímann. Ég komst ekki að til að segja að það væri ansi heitt, svo  fyrir rest varð ég  að grípa fyrir andlitið, eða labba út með annarsstigs bruna á hornhimnunum hehe. Þegar mér leið við yfirliði var mér kippt út úr saunanu og aftur í ískalda sturtu. Ég ætlaði svo að setjast fram á bekk og jafna mig, eeen nei nei, ég vissi ekki fyrr en mér hafði verið skutlað ofan í þetta fína kröftuga nuddbaðkar og húsráðandi ( orðin vel við skál) stóð yfir mér með freyðisápu og dældi hálfum brúsa ofan í baðið. Ég mátti læsa fingurgómunum í baðkarsbrúnina svo ég yrði ekki eins og þvottur  í þvottavél.

ER ÞETTA EKKI DÁSAMLEGT, sagði húsráðandi hátt og snallt að springa úr stolti, ætlaði svoleiðis að gera vel við útlendinginn mig. Ég komst ekki að til að svara, því umsvifalaust var mér aftur dembt undir ískalda sturtu og þaðan inn í sauna þar sem ég sat sem lömuð eftir þessa sjokk meðferð. Mér varð hugsað til myndarinnar STELLA Í ORLOFI.Shocking

Seint og um síðir skreið ég út úr saunaklefanum, baðaði mig og skreiddist uppgefinn í ból, en  maður minn, það sem ég svaf vel . Ég er ekki frá því að ég vilji endurtaka þetta.  W00t


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband