Færsluflokkur: Menning og listir
Sitt lítið af hverju.....
20.2.2008 | 23:55
Ég var í heimspeki tíma í gær, sem væri svosem ekki í frásögur færandi nema fyrir það að umræðuefnið var um femínisma....átti að vera um femínisma séð frá sjónarhorni list og fagurfræðinnar en umræðurnar fóru út um víðan völl. Við vorum 3 sem áttum að vera andmælendur en fyrir það fyrsta þá vorum við ekki sammála um nokkurn skapaðan hlut og tíminn leystist upp í háværar og skarpar umræður. Það var áberandi hvað unga fólkið hafði sterkar skoðanir um það að jafnrétti hafi verið náð en þeir sem eldri eru töldu töluvert vanta uppá ennþá.....var að velta fyrir mér hvernig stæði á þessari mismunandi upplifun og því hvað mörgum er uppsigað við orðið femínismi....mín vegna mætti þetta heita kóka kóla svo lengi sem áherslurnar eru þær sömu, þ.e.a.s. sömu tækifæri fyrir alla og sömu laun fyrir sömu vinnu.....
Ég tók þó eftir því að yngra fólkið þekkir lítið til sögunnar eða þá að það hefur litla þekkingu á samfélags gerðinni og les lítið um athuganir eða rannsóknir sem gerðar hafa verið um stöðu kynjanna...
En að öðru... þá er vitlaust að gera eins og endranær sólarhringurinn dugar aldrei fyrir verkefni hvers dags og ég ýti á undan mér því sem þarf að gera....en skemmtilegt er allt þetta stúss samt..
Nú er klukkan að verða 12 á miðnætti og ég verð að tygja mig í háttinn....verð eitthvað minna við bloggið næstu dagana, ef einhver skyldi sakna mín...
síjú...
Af helginni.......
17.2.2008 | 22:26
Þá er þessi annasama helgi á enda og streð næstu viku byrjar um leið og ég opna augun í fyrramálið....ég er eiginlega farin að bíða eftir páskafríi...ætla liggja með tærnar upp í loft og gera helst ekki neitt nema eyða tíma með fjölskyldunni minni.
Í gær vorum við nemar í fagurlistadeild með opnun í gallerí boxi , gerðum verk á Veggverk í miðbæ Akureyrar. Einnig var listamaðurinn Hrafnkell Sigurðsson með opnun. Við buðum upp á súpu og brauð ásamt smá söngatriði, það gekk vel hjá okkur þó maður væri ekki alveg laus við stress.....það minnkaði heldur ekki við að sjá svona marga góða tónlistarmenn mæta á svæðið....sá strákana í Gus Gus....ég er mikill aðdáandi þeirra....
Húsband bauð svo bandinu í mat í ljúffengar kjúklingabringur og svo var farið í teiti til einnar skólasystur annars má ég ekki vera að því að skrifa núna, á að vera lesa fyrir heimspekina....
en ég kem aftur......
Mínar andans truntur......og appelsínur.
13.2.2008 | 00:36
Annir og appelsínur hét þáttur sem sýndur var fyrir einhverjum árum síðan....gott nafn. Lýsir lífi mínu síðustu daga, er á þeytingi frá morgni til miðnættis og borða appelsínur á hlaupum .
Ég hef varla náð að fylgja eftir mínum andans truntum, æði á milli verkefna framkvæmi hægri vinstri og fylgi í humátt á eftir.....held að þetta séu sterarnir, á bara eftir að vera á lyfjum í viku í viðbót þá ætti ég að geta skellt hnakki á truntuna og farið fetið....hentar mér eiginlega betur.
Við nemar í fagurlistadeild ætlum að opna sýningu á laugardaginn á Vegg verki á Akureyri, verkið heitir FURAHA sem þýðir gleði eða hamingja á Svahili....við munum birta myndir á mynd/ bloggi sennilega eftir helgi, svo verður opnunarteiti í gallerí Boxi kl 16, allir að mæta.
Svo verð ég að koma því við að lesa um helgina fyrir heimspekina, á að andmæla í næstu viku og eins gott að vera vel undirbúin, nú og svo þarf að finna tíma fyrir hljómsveitaræfingar....og og og og......
Skellti mér annars í ræktina í dag sef orðið illa fyrir bakverkjum svo það er ekki um annað að ræða, finnst alltaf jafn skrítið að koma inn í svona stöðvar og sjá sólbekkjarbrúna vaxtarræktar kroppa, einhvernvegin finnst mér allir eins......( kjánahrollur)
æi ég er stundum í þeim gírnum að vilja sjá fólk eyða meiri tíma í hugsjónir og velferðarmál heldur en að mata útlitsgyðjuna...allt snýst orðið um lúkkið, rétta húsið, réttu mublurnar, réttu merkin og guð má vita hvað..... auðvitað er gott og blessað að hugsa vel um sjálfan sig, reyndar ættu allir að gera það....en hugsum líka um aðra þá fyrst er gaman að vera til...
truntan hefur róast er farin með hana í bólið.....þangað til næst ble ble...
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 00:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
Leyndarmálið stóra.....
9.1.2008 | 01:31
Ég sagði frá því í færslunni á undan að ég hefði farið í leikhús á Sunnudagskvöldið. Hef áður séð leikrit sem fjallar um sama efni, kynferðislega misnotkun og svo sem lesið margt líka, að ég tali nú ekki um persónulega reynslu. Dóttir mín varð fyrir misnotkun fyrir einhverjum árum síðan, þannig að ég þekki vel til hvaða hrikalegu afleiðingar svona glæpir hafa. Ekki bara fyrir fórnarlambið heldur alla sem eru í kringum þann einstakling.
Lengi vel gat ég ekki talað opinskátt um þetta..upplifði svo mikla skömm. Hvernig gat þetta gerst í minni fjölskyldu? Við sem fræddum börnin okkar um leið og þær fengu einhvern orðaforða til að skilja hvað maður var að tala um. Við ræddum við þær um snertingar, hvenær ætti að segja nei, að láta vita ef einhver sýndi þeim óeðlilegan áhuga og svo framvegis. Þetta gerðist samt, og litla stelpan mín brást við eins og önnur fórnarlömb, tók byrðina á sig og þagði. Alltof lengi,vildi halda friðinn. Enginn orð fá lýst ógleðinni, vanmættinum og sorginni sem maður fer í gegn um sem foreldri. Hvar brást ég, af hverju gat ég ekki afstýrt þessu, en allra verst er þó að vita af þjáningu barnsins.
Höfundur verksins kemur með nýja nálgun. Hún segir " við getum verið elskuð mikið af fólki sem særir okkur" og það er einmitt það sem gerir þessi mál að harmleikjum. Oft eru fórnarlömb í tilfinningatengslum við geranda, elskar jafnvel viðkomandi. Þetta er oft einhver nákomin og það er svo erfitt að hata þann sem maður elskar.
Leikritið var þannig upp sett að að maður var neyddur til að hlæja á óþægilegum augnablikum og gerandinn-frændinn var sýndur sem elskulegur og góður maður sem elskaði litlu frænku sýna ofurheitt og á rangan hátt.
Ég veit ekki hvort ég næ að gera mig skiljanlega, er ekki á nokkurn hátt að afsaka, réttlæta eða gera lítið úr alvarleika misnotkunar. Er kannski bara að reyna nálgast þetta frá annarri hlið, fyrir mig og aðra.
Ef allir gerendur væru illa innrættir misyndismenn væri málið auðveldara, í það minnsta fyrir aðstandendur, það er bara ekki tilfellið.
Margt annað frábært kemur einnig frá höfundi verksins t.d. um viðhorf almennings, stöðu kynja og fleira. hef bara því miður svo lítinn tíma til að setjast yfir það til að berja saman blogg/texta um málið..hvet hins vegar alla til að fara og sjá verkið, það er aldrei of mikið gert af því að ræða þessi mál, frá öllum hliðum.
Nótt nótt......
Blóðsykurfall,kuldi,annir og leikhús.
8.1.2008 | 00:36
Ætla samt að vakna 6:30 og skella mér í leikfimi, ná úr mér sykurdoðanum. Í dag var kóld turký, ekkert nammi og enginn sykur- afleiðing? jú ég er búin að vera ísköld og með nötrandi blóðsykurfall síðan 7 í morgun. En hvaa verð orðin góð eftir 3 daga.
Ég má orðið hafa mig alla við til komast bloggrúntinn, Þið Þarna elskulegu bloggvinir skrifið svo mikið og oft og auðvitað má ég ekki missa af neinu.
Hei smá hugmynd! er ekki hægt að setja kvóta á ykkur þið vitið....einn bloggar í dag, annar á morgun og svo koll af kolli? Ha, nei segi bara sona.
Annars fór ég í leikhús í gærkveldi á frábæra sýningu sem heitir " Ökutímar " sem mér finnst að allir landsmenn ættu að sjá. Leikarar náðu að fara með mig upp og niður allan tilfinningaskalann, og ég teygðist út og suður. Gekk út af sýningunni með ekka og grátbólgið andlit.
En þar sem það er orðið svo framorðið og ég úrvinda þá segi ég nánar frá verkinu síðar.
Þangað til.....smjúts.