Við erum að tala um óskarinn......
23.1.2008 | 23:40
Skellti mér í bíó í kvöld með stórfjölskyldunni að sjá þessa margrómuðu mynd Brúðgumann og verð bara að segja að þetta er með betri myndum sem hafa verið framleiddar. Allt gekk upp, sagan, leikstjórnin, leikurinn, klippingin (til hamingju Beta) hljóðið, búningar,props, bara allt heila klabbið. Ég hef ekki oft verið frussandi af hlátri og grátandi á sama andartaki en gerði það í kvöld. Við erum að tala um óskars tilnefningu hérna....ok allir í bíó það má bara ekki missa af þessu. Til hamingju Ísland með frábært kvikmyndagerðarfólk og framúrskarandi leikara.
Er farin í kojs, ætla að reyna endur upplifa myndina, ja nema ég fari aftur um helgina, er einhver með
veisla tiltekt og andleysi.....
21.1.2008 | 02:34
Á Akureyri hefur verið sannkölluð listaveisla um helgina. Mér telst til að ég hafi farið á einar 6 myndlistarsýningar auk tónleika sem haldnir voru í Populus Tremula, endaði svo skemmtilegt kvöld á kaffi karó þar sem ég hitti fullt af skemmtilegu fólki og bæði dansaði og söng.
Ég hef hins vegar oft verið hressari heldur en í dag, aldur og fyrri störf eru farin að segja til sín fyrir aðeins örfáum árum síðan gat ég dansað hálfa nóttina og verið hress daginn eftir en það er liðin tíð.
Ég afrekaði þó þrátt fyrir þreytu að klára flytja vinnustofu og druslaðist til að ganga frá því dóti í geymslu, þangað til ég fæ annað pláss og svo var skúrað, skrúbbað og þveginn þvottur og ég ógisssslega ánægð með mig.
Kannski er það þessi árstími og þetta myrkur sem gerir það að verkum að mig hrjáir stífla á öllum sviðum, kannski er rétt að kalla það andleysi......fæ engar hugljómanir hvorki blogglega eða myndlistarlega.
Ég vildi gjarnan vera í Chile hjá litla bróa, í blússandi sól og sumri en það er ekki ókeypis að fara þangað og svo er ég bundinn af skólanum, ekkert spennandi að fara á sumrin þá er vetur hjá honum með tilheyrandi rigningum.
Hann og fjölskylda hans fengu sláandi fréttir fyrr í vetur. Þannig var að tengdapabbi hans hvarf fyrir 20-25 árum síðan, talið var að yfirvöld ættu þátt í því, að hann hafi verið tekinn af lífi. Tengdamamma bróa baslaði ein áfram með heimili og börn og fékk einhverja smánarlús frá ríki í sárabætur fyrir eiginmanns missi.
Í vetur fengu þau hins vegar hringingu þar sem þeim var tilkynnt um það að hin löngu týndi faðir hafi fundist látin í kofa ekki mjög langt frá þar sem þau búa. Þið getið rétt ýmindað ykkur sjokkið., þau búin að syrgja öll þessi ár en svo var hann á lífi allan tímann og var meira að segja ekkert langt frá þeim....það lítur allt út fyrir að pabbinn hafi farið í felur og á einhvern dularfullan hátt dregið fram lífið í þessu kofaskrifli. Nú fara þau í gegnum allt sorgarferlið aftur. Ég get ekki ýmindað mér hvernig það væri að hafa svona ógnarstjórn, eins og var á þeim tíma.
Í þessum samanburði er gott að vera íslendingur.
farinn í háttinn.....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Ég..hóst hóst er komin hóst aftur....
16.1.2008 | 18:58
Hangi heima í dag með kolstíflað nef, hósta og astma. Veit fátt leiðinlegra en að vera kvefuð, er drulluslöpp með hausverk og líður eins og það sé bómull í hausnum á mér, á meira segja erfitt með að hugsa.....
Unglingurinn minn styttir mér stundir með gítarspili...blúsuðu gítarspili, ég ligg undir teppi í náttbuxum og þykkum ullarsokkum drekkandi sítrónuvatn með hunangi og reyni að njóta ljúfra tóna.
Annars skrapp ég í Höfuðborgina um síðustu helgi, hitti fullt af frábæru fólki bæði bloggvini og aðra vini. Hentist svo í IKEA og sjoppaði smá. Var reyndar smá tíma að átta mig á verslunarfyrirkomulagi og að rata um búðina, þessi búðarferð tók reyndar nokkra klukkutíma því verslunin er svo stór að maður skreppur ekkert í Ikea, það er hálfsdags prógramm að fara þangað.
Hátt og mikið hundsgelt truflaði veikindi mín áðan og ég sem aldrei má missa af neinu skreiddist út í dyr til að sjá hvað gengi á.......Þá var það bara Lúkas að ibba sig við annan hund sem býr á heimilinu hinu megin við götuna, jú þetta er hinn eini sanni Lúkas, hann er víst nágranni minn. Hann er mér áminning um hvernig múgsefjun verður til og vonandi öðrum líka......
Ég fór og heimsótti frábært eintak af manneskju í gær...litlu 4ja ára ömmustelpuna mína. Hún sat við eldhúsborðið einbeitt á svip, með tungubroddinn í munnvikinu, amman var í kjaftastuði og talaði út í eitt við barnið.....sú stutta sagði eftir smá stund....amma þú ert að trufla mig. amman fór að gá hvað væri svona mikilvægt, jú skottan var að reikna og skrifa! Hún skrifar einfaldar setningar og reiknar tölur frá einum og upp í tólf...getur ekki beðið eftir að byrja í skóla og finnst ósanngjarnt að geta ekki byrjað þó hún sé 4ja ára.
Ömmustelpa hefur óbilandi sjálfstraust, lætur sko ekki segja sér hvað hún getur og getur ekki. Sú stutta elskar prinsessukjóla og gullskó, hefur brennandi áhuga á bílum útivist og dúkkum. Hún á marga vini og þar á meðal eru tveir 6 ára gamlir strákar, hún býður þeim gjarnan inn að leika og um daginn laumaði ég mér inn í herbergi til þeirra, þar sátu þessar elskur á gólfinu í barbí...strákarnir greiddu þeim og klæddu en sú litla gaf skipanir hægri vinstri um hlutverk hverrar dúkku og hvað hver ætti að segja.......hún á eftir að láta til sín taka seinna meir.
Er farin að safna kröftum og láta mér batna....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Leyndarmálið stóra.....
9.1.2008 | 01:31
Ég sagði frá því í færslunni á undan að ég hefði farið í leikhús á Sunnudagskvöldið. Hef áður séð leikrit sem fjallar um sama efni, kynferðislega misnotkun og svo sem lesið margt líka, að ég tali nú ekki um persónulega reynslu. Dóttir mín varð fyrir misnotkun fyrir einhverjum árum síðan, þannig að ég þekki vel til hvaða hrikalegu afleiðingar svona glæpir hafa. Ekki bara fyrir fórnarlambið heldur alla sem eru í kringum þann einstakling.
Lengi vel gat ég ekki talað opinskátt um þetta..upplifði svo mikla skömm. Hvernig gat þetta gerst í minni fjölskyldu? Við sem fræddum börnin okkar um leið og þær fengu einhvern orðaforða til að skilja hvað maður var að tala um. Við ræddum við þær um snertingar, hvenær ætti að segja nei, að láta vita ef einhver sýndi þeim óeðlilegan áhuga og svo framvegis. Þetta gerðist samt, og litla stelpan mín brást við eins og önnur fórnarlömb, tók byrðina á sig og þagði. Alltof lengi,vildi halda friðinn. Enginn orð fá lýst ógleðinni, vanmættinum og sorginni sem maður fer í gegn um sem foreldri. Hvar brást ég, af hverju gat ég ekki afstýrt þessu, en allra verst er þó að vita af þjáningu barnsins.
Höfundur verksins kemur með nýja nálgun. Hún segir " við getum verið elskuð mikið af fólki sem særir okkur" og það er einmitt það sem gerir þessi mál að harmleikjum. Oft eru fórnarlömb í tilfinningatengslum við geranda, elskar jafnvel viðkomandi. Þetta er oft einhver nákomin og það er svo erfitt að hata þann sem maður elskar.
Leikritið var þannig upp sett að að maður var neyddur til að hlæja á óþægilegum augnablikum og gerandinn-frændinn var sýndur sem elskulegur og góður maður sem elskaði litlu frænku sýna ofurheitt og á rangan hátt.
Ég veit ekki hvort ég næ að gera mig skiljanlega, er ekki á nokkurn hátt að afsaka, réttlæta eða gera lítið úr alvarleika misnotkunar. Er kannski bara að reyna nálgast þetta frá annarri hlið, fyrir mig og aðra.
Ef allir gerendur væru illa innrættir misyndismenn væri málið auðveldara, í það minnsta fyrir aðstandendur, það er bara ekki tilfellið.
Margt annað frábært kemur einnig frá höfundi verksins t.d. um viðhorf almennings, stöðu kynja og fleira. hef bara því miður svo lítinn tíma til að setjast yfir það til að berja saman blogg/texta um málið..hvet hins vegar alla til að fara og sjá verkið, það er aldrei of mikið gert af því að ræða þessi mál, frá öllum hliðum.
Nótt nótt......
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (27)
Blóðsykurfall,kuldi,annir og leikhús.
8.1.2008 | 00:36

Ætla samt að vakna 6:30 og skella mér í leikfimi, ná úr mér sykurdoðanum. Í dag var kóld turký, ekkert nammi og enginn sykur- afleiðing? jú ég er búin að vera ísköld og með nötrandi blóðsykurfall síðan 7 í morgun. En hvaa verð orðin góð eftir 3 daga.
Ég má orðið hafa mig alla við til komast bloggrúntinn, Þið Þarna elskulegu bloggvinir skrifið svo mikið og oft og auðvitað má ég ekki missa af neinu.
Hei smá hugmynd! er ekki hægt að setja kvóta á ykkur þið vitið....einn bloggar í dag, annar á morgun og svo koll af kolli?

Annars fór ég í leikhús í gærkveldi á frábæra sýningu sem heitir " Ökutímar " sem mér finnst að allir landsmenn ættu að sjá. Leikarar náðu að fara með mig upp og niður allan tilfinningaskalann, og ég teygðist út og suður. Gekk út af sýningunni með ekka og grátbólgið andlit.
En þar sem það er orðið svo framorðið og ég úrvinda þá segi ég nánar frá verkinu síðar.
Þangað til.....smjúts.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Bullandi fráhvörf og brenndir afturendar....
4.1.2008 | 00:55
Ég hef sýnt af mér eindæma þráhyggjukennda hegðun í dag, jú sei sei reyndi nebbla ítrekað að komast inn á bloggið vitandi það að stórfelldar árásir væru í gangi og allt lok lok og læs
Kannski þessi hegðun orsakist af sykurdoða sem lagst hefur á heilan eftir margra daga át í óhollustu......allavega var ég eins og fíkill í fráhvörfum þegar ég stakk hausnum oní kökudúnkana og sleikti þá að innan, nei djók ,en mig langaði svakalega til þess.
En ég semsagt eyddi deginum í það að hlaupa um í ofboði með afþurrkunarklút og moppu á milli þess sem ég leitaði í mikilli örvæntingu að sætindum í skápunum, opnaði meira að segja sömu skápana aftur og aftur....eins og ég myndi fyrir eitthvert kraftaverk finna súkkulaði sem var þar ekki áður, og rauk svo þess á milli í tölvuna vitandi að það væri vonlaust að komast inn...DHÖ
Mitt í öllu þessu rugli dettur mér sú della í hug að draga húsband með mér í ljós.
Jess æ nó, það er svakalega óhollt, hef ekki farið í mörg ár en fannst einhvern veginn að þetta væri brilljant hugmynd, hlyti bara að vera gott gegn öllu myrkrinu sem hvílir yfir landinu.
Húsband gerði heiðarlega tilraun til að mótmæla ( að sögn ) en auðvitað heyrði ég það ekki, enda í bullandi blogg og sykur fráhvörfum.
Í kvöld sitjum við svo fáklædd með svíðandi brunatilfinningu á afturendanum og lýtum út eins og jólatré í fullum skrúða, eldrauð og lýsandi...... étandi nömm, því auðvitað var komið við í sjoppu á heimleið til að bjarga geðheilsu minni.
Gleðilegt ár,vinir vandamenn og allir hinir.
3.1.2008 | 01:00
Síðustu dagar hafa verið yndislegir. Ég, húsband og yngsta dóttir fórum vestur til litlu systur minnar og hennar fjölskyldu til að eyða áramótunum þar eins og við höfum gert ótal sinnum áður.
Á gamlárskvöld er iðulega opið hús hjá þeim, borð svigna undan veitingum og hinir og þessir kíkja í heimsókn.
Eftir miðnætti skelltum við okkur öll á sveitaball og yngsta barnið okkar fór með. Hún skemmti sér konunglega við það að dansa við foreldrana klukkutímum saman. Ég er samt alltaf jafn hissa hvað lífið æðir áfram komið árið 2008 og yngsta barnið úti að skemmta sér með okkur.Ég hefði gjarnan viljað hafa hinar dætur mínar hjá mér, en það er víst ekki hægt að vera á mörgum stöðum í einu.
Á nýársdag pökkuðum við okkur saman og brenndum heim. Enn eru svo nokkrir dagar í að skólinn byrji þannig að maður getur komið sér í rútínu aftur, klárað að lesa allar bækurnar sem við fengum í jólagjöf og trappað sig niður af átinu ekki veitir af öll föt orðin ískyggilega þröng um miðjuna....og kannski keypt sér kort í ræktina.
Enn þangað til næst ble ble......
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Ofát, andvökur og meðvirkni....
27.12.2007 | 09:24
Klukkan er rétt að verða átta að morgni og ég bara komin við tölvuna. Ef það væri vegna dugnaðar og ferskleika væri það hið besta mál, en nei. sú er nú víst ekki raunin..... ofát síðustu daga er nefnilega farið að segja til sín. Að baki eru matar og kaffiboð sem voru á við bestu fermingarveislur. Ef þessu áti fer ekki að linna hvað úr hverju mun birtast á mér bumba sem hver rútubílstjóri gæti verið stoltur af.
Svo eru meltingar truflanir farnar að gera vart við sig með tilheyrandi vökum, ofan í mig hefur farið ómælt af smákökum, konfekti, saltfiski, skötu,steikum, eftirréttum,og öli, ásamt öllu tilheyrandi meðlæti, og framundan eru enn meiri átdagar.... Svo hefur öll hreyfing verið í lágmarki...ískápur...sófi.....ískápur....eldhús......ískápur....rúm.....ískápur.....klósett....ískápur.....svalir ??, jú maður verður að reykja með þessu...ískápur.......
Ég hef komist að því síðustu nætur, að í mér blundar meðvirkni af verstu gerð, ég hef aldrei sýnt þvílíka takta á því sviði eins og ég hef gert undanfarna daga og það gagnvart hundum. Hef verið að passa hvolpa dúska dóttur minnar og þeir eru ekkert endilega að sofa á sama tíma og ég. Þó náði vitleysan hámarki í nótt.....kom sjálfri mér alveg á óvart.
Hundamamman fór að væla í nótt og auðvitað um það leyti sem ég var að festa svefn, nú amman rauk fram til að athuga hvað amaði að, og auðvitað var ekkert að, tíkin vildi bara komast inn til mín, ég gerði heiðarlega tilraun til að horfa ákveðið í stór biðjandi augu hundsins og segja nei......gat það bara ekki.
Inn fór syfjuð amma með hundskott töltandi á eftir sér. Í annað sinn er ég að sofna þegar hvolparnir fara að væla, tíkin sperrist upp og krafsar á hurðina, vill auðvitað komast fram til barnanna sinna, amman fer fram úr opnar dyr og inn ryðst hersingin, 4 litlir dúskar bitu sig fasta á tærnar á mér.
Hvolpunum var dröslað fram og inn í búr, og aftur stormaði ég inn í herbergi. Eftir smástund fer tíkin að gelta og hvolparnir líka, amman gefst upp, tekur sæng og stormar brúnaþung fram í stofu og upp í sófa, náði að dorma um stund með höndina lafandi niður á gólf og hvolpana nagandi kjúkurnar á mér.
Ég er greinilega að eldast... uppeldisgetan er í lágmarki, börnin mín hefðu ekki komist upp með svona takta eins og hvolparnir.
Er farin að ná mér í kríu......eða horfa á bólgin og bráðfalleg (bold and bjútifúl) neeee, þá er krían betri.
Jólakveðja frá Krummu.
23.12.2007 | 23:44
Kær blo vin ósk ykk gleð jól og fars ný ár
(Kæru blogg vinir, óska ykkur Gleðilegra jóla og farsæls nýs árs)
http://www.youtube.com/watch?v=24fWSBo3Yo0
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Áhrifagjörn eða hvað?
21.12.2007 | 05:29
Þó sumum lífsskoðunum mínum verði ekki haggað er ég stundum eins og margir personuleikar þegar kemur að fatastíl og lúkki. Get verið fáránlega áhrifagjörn þegar tíska er annars vegar.
Einn daginn get ég verið gler fín í pæjugalla með smink og tilheyrandi og næsta dag eins og dreginn upp úr haug í gömlum lörfum.
Þegar ég var í Finnlandi dauðlangaði mig dredda, tattoo og rokkgalla.
Þegar ég fór á árum áður til Kanarý sá ég gullsandala og blómakjóla í hillingum.
Fór á hárgreiðslustofu í dag og fékk klipp og lit, svo nú er ég pæja eins og aðrar konur á Akureyri.
Sjúkk...að ég skuli ekki búa í kúreka fylki í Bandaríkjunum, væri sjálfsagt sprangandi um í bleikri kúrekaskyrtu með aflitað hár og gamalt perm, með hatt og alles og klingjandi spora aftan í skónum.
Maður er náttla ekki í lagi.......