Færsluflokkur: Bloggar
Sitt lítið af hverju.......
6.11.2007 | 20:10
Vinnudagarnir lengjast hjá mér dag frá degi, því ég ætla að fá sem mest útúr þessari dvöl, var í skólanum í gær til að verða hálf átta, var þá orðin mjög lúin svo ég skakklappaðist í sundlaugina góðu. Synti þar nokkra hringi með heimamönnum, já og það á skikkanlegum hraða, fór því næst í meðferðarpottinn og endaði sundferðina á tyrknesku sauna með myntu, mmm.......( meira hvað það er frábært). Var komin heim að ganga 10, og þá fékk ég mér að borða og gluggaði í listaverkabækur.
Kom við í búðum í dag og sá að þær eru allar að fyllast af jólaskrauti og jólavarningi. Mikið sem ég hlakka orðið til að fara í jólafrí. Ég er blessunarlega laus við að fara á verslunar og kortafíllerý um jól. Hætti því fyrir áratug síðan, borga það sem ég kaupi með pjjjéééningum og byrja nýtt ár með stæl, engir Visakorta timburmenn.
Það annars skyggir á gleði mína að sjá alla þessa útigangsmenn sem ráfa hér um götur. Mætti einum í þessu búðarrölti mínu sem var hlandblautur niður á ökkla og eins og dreginn upp úr öskutunnu, mikið svakalega sem þetta fólk á bágt. Algengasta dánarorsök í Finnlandi er vegna áfengis, samt gera þeir ekkert í að breyta þessum áfengiskultúr hjá sér.
Rak augun í skilti í sundlauginni þar sem stendur að það sé bannað að drekka í lauginni bíddu..... þarf að taka það fram? Áfengi er selt í öllum matvöruverslunum og sjoppum, unglingarnir eiga auðvelt með að nálgast það og fólk verslar þessar guðaveigar um leið og það kaupir mjólkina. Það þykir sjálfsagt að drekka kippu af öli með kvöldmatnum og rauðvín yfir sjónvarpinu öll kvöld.
Þunglyndi og geðsjúkdómar eru æ algengari vegna óhóflegrar drykkju Finnanna. Ég held að það yrði ekki til góðs að leyfa sölu á áfengi í matvöruverslunum á Íslandi, ef þróunin yrði sú sama og hjá Finnum yrði erfitt að snúa við blaðinu, það sem einu sinni hefur verið leyft er erfitt að banna.
Svo er mér bara ekki sama í hvernig samfélagi ég bý í, afleyðingar ofdrykkju hafa áhrif á alla, ef ekki með beinum hætti þá óbeinum. Meiri drykkja, leiðir af sér meiri og sérhæfðari læknishjálp, sem eins og allir vita er kostuð af samfélaginu, margir verða óvinnufærir og þurfa bætur í einhverju formi, og slysum og glæpum fjölgar.
En annars átti þetta ekki að vera pistill um áfengi heldur eitthvað allt annað, er farin að teikna.......
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Á náttkjól....og flamengoskóm.
4.11.2007 | 22:18
Ég er nú orðin öllu vön í þessu húsi sem ég bý í þessa mánuðina. Þannig að ég kippti mér ekkert upp við það þegar ég kom niður í morgun eftir fínan nætursvefn að sjá húsráðanda bogra yfir eldhúsborðið í einum af sínum dásamlegu náttkjólum, alsettan risagötum einmitt þar sem afturendinn er staðsettur á henni. Já og það er nánast óþarfi að nefna það, en hún var brókarlaus.
Ég brosti þó út í annað og hugsaði, jæja er nú svona komið fyrir manni....... að þó það fyrsta sem ég sjái á morgnanna sé rass á 57 gamalli konu þá skiptir það mig ekki meira máli heldur en stillimynd í sjónvarpi. Jeminn hvað maður er orðin eitthvað veraldarvanur.
Hún var hins vegar fljót að hóa í mig þegar hún varð vör við mig, look, look, sjáðu hvað ég keypti geggjað á Kanarý, hún hafði hins vegar svo snör handtök að ég sá ekki hvað var svona flott fyrr en hún var komin í það, jú stóð ekki þessi elska blýsperrt og hnakkakerrt í splúnku nýjum glansandi flamengoskóm.
Ég hélt ég yrði ekki eldri........ það er ekki á hverjum degi sem maður sér fullorðna kona á gatslitnum náttkjól, með úfið hár, dansandi flamengo í þessum líka flottu skóm.
Ég varð að taka á öllu sem ég átti svo ég myndi ekki missa það fyrir framan hana, var hins vegar snögg að segja einhvern brandara um eitthvað allt annað, náði samt varla að klára hann þegar ég byrjaði að...BHAAAAAAAAA HAHAHAHAHA, hlæja.
Hún varð pínu skrítin á svipinn, fannst þessi brandari minn ekki það fyndin að það væri einhver ástæða að tryllast úr hlátri, ég bara gat ekki fengið af mér að segja henni hver væri raunveruleg ástæða hlátursins.
ænó, pínu ljótt af mér en........
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Fyrsti snjórinn, video, popp og leti.......
3.11.2007 | 21:25
Jæja þá er húsráðandinn kominn heim úr sólarlandaferðinni, kom á föstudag en ég sá hana fyrst í dag því hún hefur sofið frá því hún kom, dauðuppgefin greyið.
Hún ber það svo sem ekkert með sér að hafa verið í sól, hvítari en kríuskítur, reyndar með ögn stærri maga, sem orsakast af miklu vínþambi. Hún var reyndar ansi séð, tók með sér í plastflöskum alla afganga af víni sem hún hafði keypt á Kanarý, svo nú eru eldhúsbekkirnir þétt setnir af sérrý, og hvítvíni í kókflöskum.
Annars féll fyrsti snjórinn hér í Lathi í dag, og meira hvað birtir upp við það. Ég elska svona veður, þar sem snjórinn fellur hægt til jarðar og kaldur og ferskur andblær er í loftinu. Minnir mig á jólin.
í dag er letidagur hjá mér, ég er vön að vinna allar helgar en ákvað að taka frí í dag, er að horfa á bíó í tölvunni og borða popp, ótrúleg tilbreyting því ég hef ekki horft á sjónvarp í nokkra mánuði.
en hvað um það nenni ekki að skrifa í dag, er farin að horfa á meira bíó,
síjúgæs.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Íslenskt hvað!!
1.11.2007 | 20:00
Heitar umræður hafa verið á blogginu um hvort leyfa eigi byggingu Moska í Höfuðborginni. Ég veit fyrir víst að trúfrelsi ríkir í landinu, og vegna þess, ættu þeir að fá að byggja sína Mosku.
Ég nenni annars ekki að skrifa langan pistil um það mál akkúrat, hef sagt hvað mér finnst í kommentum hjá öðrum bloggurum.
Tók samt eftir því að margir notuðu þau rök gegn Moskunni að það myndi breyta svo ásýnd íslensks samfélags. Hér yrði bara allt vaðandi í einhverju sem ekki væri íslenskt.
Þá spyr ég, hvað er svona fjári íslenskt? Það er ekki eins og íslendingar upp til hópa gangi hér um í upplutum og þjóðbúningaskarti dags daglega, stífandi sviðakjamma og súra punga úr hnefa.
Ég sé hins vegar Ameríska hamborgar staði út um allt, ítalska pissastaði, fatnað sem framleiddur er í austurlöndum, síma frá Finnlandi, og svo framvegis.
Það eina sem gæti kallast séríslenskt í dag er tungumálið og þessi ljóti arkitektúr sem er sjáanlegur út um allt land. Að mínu mati er Reykjavík með ljótari borgum Evrópu. Heima á Íslandi ægir saman öllum gerðum af arkitektúr, sjá má byggingar í spænskum stíl, innflutt hús frá Kanada, Norðurlanda stíl, en tæplega eitthvað sem getur talist "sér " íslenskt, ja nema torfbæina og mér vitanlega eru ekki margir sem búa við slíkan húsakost í dag.
Kæru íslendingar, ef þið hafið ekki tekið eftir því ennþá, þá eru þeir tímar í dag þar sem séreinkenni hvers lands eru orðin harla dauf, það sem aðgreinir löndin frá hvort öðru eru tungumálin. Og tungumála örðugleika mál alltaf yfirstíga, ég er reyndar á því að það eigi að taka upp eitt alþjóðlegt hjálpartungumál, þá getur hver þjóð haldið sínu eigin tungumáli og talað auk þess hjálpartungumál. Sjáið ekki fyrir ykkur hvað þetta myndi auðvelda öll samskipti á milli þjóða Það eitt og sér myndi ryðja úr vegi töluvert af fordómum sem lönd hafa gagnvart hvort öðru.
Að vísu skera þau sig aðeins frá, þau lönd sem hafa múslimska trú, en það þarf ekki að vera neikvætt, já og áður en einhver tryllist, þá eru ég ekki að tala um öfgahópa sem fyrir finnast innan allra trúarbragða, heldur almennt.
Jörðin er í dag eins og eitt land, t.d. eru þjóðir í dag háðar hver annarri með innflutning og útflutning, menntun og vísindi, umhverfismál og loftslagsmengun,svo eitthvað sé nefnt. Í dag er enginn þjóð eyland. Hættum þessu þjóðrembustolti og förum að líta á jörðina sem eitt land, sem rúmar ótrúlega fjölbreytni í mannlífi og siðum. Þá fyrst er hægt að fara vinna að friði.
Peace man.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Smá skýrsla frá Finnlandi.
1.11.2007 | 11:23
Það hefur allt verið með kyrrum kjörum í húsinu síðustu daga, húsráðandi brá sér nebbbla til Kanarý í vikuferð.
Hún var orðin svo ósköp þreytt blessunin, að eigin sögn, og veitti ekki af hvíld í sólinni.
Á kanarý ætlaði hún að njóta þess að liggja á ströndinni alla daga og sötra rauðvín, ég sé samt ekki alveg muninn, hún sötrar rautt alla daga í Finnlandi. Hún ætlaði ekki einu sinni að sóla sig, bara vera undir sólhlíf og lesa.
Að vísu fjölgaði aðeins á heimilinu, dóttir húsráðanda, tengdasonur og tveir kettir fluttu inn í dag, það verður fróðlegt að sjá hvernig heimilislífið verður þegar svo margir eru búsettir í húsinu. Það er t.d. ekki hægt að læsa að sér á klósettinu, sem hefur sloppið hingað til, enda bara kjéddlur í húsinu, nú er kominn karlmaður á heimilið, gerir málið pínu flóknara.
Síðustu daga hef ég haft mikið að gera, er í þessum grafíkkúrs og svo mála ég eftir það eitthvað fram á kvöld, nú svo sendi ég frá mér ritgerð og svo þarf að læra meira í Finnsku, sem þyngist eftir hvern tíma.
Ég áttaði mig á því í gær að ég hef verið að sanka að mér bókum frá tveimur bókasöfnum, taldi einar 15 bækur á borðinu, sem væri í sjálfum sér í lagi ef ég læsi þær allar. maður er bara svo upptekinn við að lesa blogg, Svo nú þarf ég að skila, merkilegt hvað mér fannst þær vera þyngri á leiðinni í safnið heldur en þegar ég tók þær.
Framundan er svo matarpartý, jú jú vegna fjölda áskoranna ætla ég að elda fyrir skiptinemana aftur á föstudagskvöldið, reyndar var ákveðið í framhaldi af því að taka upp smá stutt mynd. Jakub vinur minn er í áfanga sem heitir mixed media, og þar eru þau meðal annars að gera myndir, þannig að matarboðið verður allt filmað, og eitthvað þarf að leika/ performera, bara gaman af því.
Jæja vinir og vandamenn, verð að haska mér í skólann, við heyrumst síðar, já meðan ég man, mikið væri nú gaman ef fólk kvittaði annað slagið sem kíkir hér inn, ég er að drepast úr forvitni og ekki viljum við það.
BLE BLE
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Held það hafi slegið aðeins útí fyrir mér.
30.10.2007 | 19:24
Merkilegt hvernig maður er. Áður en ég fór út hlakkaði ég mest til að losna frá heimilisstörfum, sá að ég myndi nú hafa allan heimsins tíma bara fyrir sjálfa mig.
En mikið ferlega er það nú þreytandi til lengdar, að hugsa bara um rassgatið á sjálfum sér.
Nú sé ég það í hyllingum að elda heima hjá mér og hanga á moppunni. maður er náttúrulega ekki í lagi.
Ég sá það líka í hyllingum hvað allt yrði nú auðvelt þegar börnin yrðu stór, nú eru þau stór og ég vildi gjarnan að þau yrðu ogguponsu lítil aftur. ég sé í rósrauðum bjarma brjóstagjöf og knús og kjass, þykist auðvitað ekkert muna eftir því þegar ég var það örmagna eftir næturgrát barnanna að húsbandið varð að teygja sig í brjóstið og leggja barnið á spena svo það fengi nú einhverja næringu, og ég var nánast rænulaus á meðan. Svo auðvitað skreið hann ósofinn í vinnuna á morgnana.
Ég held að þetta sé elli merki þegar maður man bara það góða og sér jafnvel hlutina betri en þeir voru. Kannski sem betur fer, ætli ég væri ekki vitskert öðruvísi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Pirripirripirr pirripirr pirripirri pirr pirripirr...........
29.10.2007 | 22:05
Ég fór í smá yfirhalningu á hárgreiðslustofu í dag, sem væri varla í frásögur færandi nema fyrir það að auðvitað lenti ég á konu sem var svo varkár í öllum hreyfingum að það var að gera mig..... BRJÁLAÐA.
Ég þoli ekki að fara í hárþvott hjá fólki sem nuddar hársvörðin svo laust að það jaðrar við að vera kítl. Allt sem konan gerði var í samræmi við hárþvottinn, greiðunni var strokið OFUR hægt..... um hárið, hún klippti ofurhægt...... og talaði ofurhægt. ........
Ég var 3 tíma í stólnum hjá henni af því hún var svo hæg. Viljiði spá í 3JA TÍMA PIRRINGI.
Það er eins gott að ég er dagfarsprúð kona en hefði ég þurft að vera mínútu lengur hefði ég öskrað á hana.
Ég get bara ekki að því gert en svona meðferðir virka ekki á mig eins og slökun, ég verð hins vegar trítil óð
Ég hef líka lent á svona sjúkraþjálfurum, sem þykjast vera nudda en koma varla við mann máttleysislegar strokur eftir bakinu eru bara ekki að gera sig. Mig langar að taka svona fólk og hrista það.
ARG ég get orðið svo pirruð, þetta er eins og klæja stanslaust í nefið.
Djö.... hvað er djúpt á pollyönnu núna.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Halló, hefur einhver séð færsluna mína?
29.10.2007 | 16:20
Haldið að ég hafi ekki týnt nýjustu færslunni minn. Ég kom heim frá Turku í gær og skrifaði pistil um þá ferð, birti hann að ég taldi en...... finn hann hvergi. Veit ekki hvað ég hef gert sem varð þess valdandi að ég finn hann ekki. Allavega nenni ég ekki að skrifa allt aftur, en í stuttu máli sagt, þá var þetta nú samt skemmtileg ferð. Turku er mikið fallegri borg heldur en Lathi og fólk þar er opnara og líkara því sem maður á að venjast að heiman.
Hér er enn ágætis veður, snjólaust en það frystir örlítið á nóttunni, ekki það að ég hef ekkert á móti kulda og snjó, það er helv..... slabbið sem ég þoli ekki, það verður allt blautt og maður einhvern veginn veit aldrei hvernig á að klæða sig.
Það styttist óðum í heimför hjá mér, rétt rúmir 30 dagar eftir, já ég er sko farin að telja niður og er á stundum viðþolslaus af tilhlökkun, ég má hafa mig alla við til að halda einbeitingu við námið. Nú reynir á að nota pollyönnu takta á tilveruna.
Ég dauðöfundaði húsbandið um helgina, hann fór í afmæli til frænda og vinar en þar sem þeir eru samankomnir er alltaf gaman, eftir afmæli fór hann á ball með vinkonum okkar í heimilistónum, ég hefði svo gjarnan viljað vera þar, enda engu líkt að skemmta sér með þeim. En koma tímar og koma ráð. En nú verð ég að einhenda mér í námið, öðruvísi hefst þetta víst ekki, þangað til næst. BLE BLE.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
ÖR-BLOGG.
25.10.2007 | 23:05
Jæja elskurnar þá er það ör-blogg, það er nefnilega löngu kominn háttatími hjá mér þegar þetta er skrifað, er bara svo upp tjúnnuð að ég get ekki sofnað.
Á morgun ætlum við óskar skólabrói að fara í helgarferð til Turku, ætlum að heimsækja Paulu vinkonu okkar, þannig að.... ég verð að lifa án þess að blogga eða lesa blogg.
Á mánudag byrjar svo nýr kúrs hjá mér, mjög spennandi, ég skráði mig í grafík/ prent, hef svo sem farið í þannig kúrs áður, en þetta er tilbreyting og í raun allt annað en að mála. Ég er búin að staðfesta það að ég fari heim 1 des, og ég get varla beðið. Þá verð ég búin að vera hér í 3 mánuði og lengur get ég bara ekki hugsað mér að vera frá fjölskyldu sem fer óðum stækkandi. Hundur dóttur minnar eignaðist 4 hvolpa í dag og fékk ég beinar lýsingar af fæðingu, var á tímabili að missa mig yfir þessu öllu saman. En það besta er og nú má ég kjafta ( hef þurft að þegja svo lengi ) er að dóttirin sjálf er ólétt, ég er semsagt að verða amma í annað sinn.
er farin í háttinn og bið að heilsa í bili
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Finnlandsfari í sundi.
24.10.2007 | 08:55
Haldið að ég hafi ekki farið í sund í gær. ójú, ég var alveg orðin uppiskroppa með afsakanir fyrir því að fara ekki. Nú skyldi tekið á því, ætlaði að synda úr mér verki og stirðleika og slaka svo á í heita pottinum á eftir, enda fátt betra en sund gegn stirðleika. Ég mæti galvösk á svæðið og ætla vippa mér úr útiskónum en er rekinn inn í klefa með hneykslunarsvip starfsmanns og vinsamlegast beðinn um að fara úr þeim inni.
Nú ég hlýddi, fór úr skóm og öðrum fatnaði, þrammaði yfir grútskítugt gólfið og beint í sturtu, þorði samt ekki annað en að skoða í kringum mig til að sjá hvort ég væri örugglega ekki að gera eins og hinir. Jú, hefðbundinn þvottur virtist eiga sér stað áður en fólk fór í laugina.
Ég stormaði úr sturtu og í laug. Ég hefði betur staldrað við og skoðað aðstæður. Ég nefnilega vissi ekki fyrr ég var allt í einu komin í röð af syndandi fólki. Sá í hendingu að sá partur af lauginni sem ætlaður var fyrir almenning var örmjór. Ég hef aldrei á ævi minni synt eins hratt, sló persónulegt hraðamet. Það kom reyndar bara til af því að sá sem á undan mér fór syndi eins og um keppni væri að ræða, og ekki vildi ég verða til þess að skemma rythman í röðinni. Eftir 4 hringi ( jú við syntum í hringi, maður varð að beygja á öllum hornum) var ég gjörsamlega búin á því, bæði vegna hraðans og svo var mér auðvitað brugðið yfir þessu fyrirkomulagi.
Ég náði einhvernvegin að klóra mig út í horn án þess að skemma taktinn og kasta þar mæðinni dágóða stund, lét eins og ég væri þarna á hverjum degi og gerði ekkert annað en að synda í röð ákvað að taka nokkra hringi í viðbót enda kom ég þarna til að hreyfa mig. Varð að sæta færis á því að komast í hringinn, sá smá glufu, spyrnti eins fast og ég gat frá bakkanum og endaði uppí klofi á næsta manni.
Auðvitað var sundgarpurinn sem stjórnaði hraðanum löngu farin, sá sem hins vegar stjórnaði núna var þvílíkur hægfari að ég mátti troða marvaðann í 4 hringi ef ég ætlaði ekki að drukkna þarna. Það var ekkert pláss til að taka fram úr.
Ég neytti síðustu kraftana í að klóra mig upp úr lauginni og í heita pottinn.
Þegar ég fékk rænu aftur sá ég og fann að þetta var enginn venjulegur pottur. Í honum voru nefnilega túður af öllum stærðum og gerðum. Skyndilega fer allt á fleygiferð og á því andartaki sá ég skiltið fyrir ofan pottinn sem á stóð ( á Finnsku auðvitað) MEÐFERÐAR POTTUR. Ég var skyndilega barinn með vatni í herðarnar, krafturinn var svo mikill að ég gat ekki hreyft hendurnar. Sundbolurinn teygðist auðvitað út í miðjan pott, en það sem var fyndnast var það að engum þótti það athugavert. Ég hélt áfram að láta eins og ég væri þarna á hverjum degi. skyndilega stöðvaðist vatnið og túða sem staðsett var rétt við afturendann á mér fór í gang. Þvílíkt snarræði sem ég sýndi, með því að klemma kinnarnar saman, hefði annars fengið þarna ókeypis stólpípu. Svo tók hver túðan við af annarri.
Þegar potturinn stöðvaðist skreiddist ég upp úr og inn í sturtu. Þar er hægt að velja um 3 saunaklefa. Ég valdi Tyrknest sauna, kannski eins gott að ég fór í sauna, veit ekki hvernig ég væri annars í dag, sennilega í rúminu, því ég er eins og áttrætt gamalmenni í dag, get með naumindum slegið á lyklaborðið, hvað þá staulast stigana, enda hef ég ekki troðið marvaðann í 30 ár. Ég ætla hins vegar aftur í sund við fyrsta tækifæri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)