Færsluflokkur: Bloggar
Smá update frá Finnlandi og sjálfsmynd í orðum.
23.10.2007 | 11:38
Meira hvað þetta blogg er mikill tímaþjófur. ég á að heita vera í viku fríi frá skólanum, þarf svo sem að vinna í því fríi en einhvern veginn afkasta ég minna þegar ég hef minna að gera, þá drolla ég bara í tölvunni lesandi blogg hægri vinstri eins og ég sé á launum við það. Þannig að kæru bloggvinir, aðrir vinir og vandamenn ,látið ykkur ekki bregða þó minna heyrist í mér næstu daga, verð nebbla að ljúka ákveðnum verkefnum í vikunni þá þýðir ekkert að vera límdur við bloggið, er svo djö.... erfitt að lesa á tölvuskjáinn og mála á sama tíma.
En svo ég leyfi ykkur að fylgjast með hvað ég hef verið að brasa síðustu daga( annað en að lesa blogg) Þá fórum við nokkur saman út að borða á föstudagskvöldið, bæði til að fá almennilegan mat og svo til að halda upp á það að þessum kúrs var að ljúka.
Fyrir valinu varð indverskur veitingastaður. Þar tók á móti okkur þjónn sem vildi ólmur vita hvaðan við kæmum og hvort við værum búsett í Finnlandi og hversu lengi við ætluðum að vera og og og og svona dundu á okkur spurningarnar. Eftir að hafa fengið tæmandi upplýsingar um allt sem hann taldi sig langa og þurfa að vita, bilaðist hann af spenningi. Nuddaði saman höndunum í mikilli geðshræringu og spurði: má ég elda handa ykkur bragðsterkan mat? Finnar nefnilega vilja einhverra hluta vegna ekki hafa bragð af matnum sínum. Þeir Finnar sem slæðast hér inn, eru skíthræddir við matinn okkar, við bjóðum uppá sterkt, medium og mild, eeeenn, erum samt búnir að dempa allt niður. Þannig að það sem telst vera sterkt á matseðli er bara milt fyrir okkur.
Nú við auðvitað pöntuðum sterkan mat og horfðum á eftir þjóninum inn í eldhús, hann svo sem reyndi að ganga virðulega, gat bara ekki hamið gleði sína sem ég skil vel, þannig að göngulagið minnti á mann í göngukeppni, mjaðmahnykkir og alles. Það besta var þó að heyra fagnaðarlæti innan úr eldhúsinu,hehe. Nú maturinn var í einu orði sagt frábær og við ætlum á þennan veitingastað aftur við fyrsta tækifæri. Eftir matinn bauð þjóninn upp á indverskt kaffi í boði hússins, og þvílíkt kaffi, fólk var farið að líta á okkur því frygðarstunurnar sem komu frá borðinu okkar jöðruðu við að vera dónó.
Eftir mat, röltum við svo á pöbb og hittum skólafélaga, þar sátum við í góðu yfirlæti langt fram eftir kvöldi og ræddum heimsins gagn og nauðsynjar.
Annars er ég alltaf að springa úr gleði þessa dagana. Ég er hamingjusöm, ekkert endilega vegna þess að allt gengur vel. Það er fullt af vandamálum í kringum mig, þau bara stjórna ekki líðan minni lengur. Ég finn fyrir hamingju ALLTAF, líka þegar mér leiðist.
Ég er alltaf að sjá og finna betur og betur að fyrir mig er hamingja, state of mind. Ég hef í dag aldrei átt eins lítið af efnislegum hlutum, ákvað í fyrra að ég vildi ekki lengur vera þræll efnislegra hluta., sem ég var. Það að eiga hús og allt of mikið af dóti, tók frá mér orku, að ég tali nú ekki um tímann sem fór í að ditta að og að borga herlegheitin. Við hjónin tókum þá ákvörðun að selja allt sem við töldum okkur geta verið án, og gera sem mest af skapandi hlutum og viti menn, höfum ekki séð eftir því eina mínútu. Við tók gífurleg frelsis tilfinning. Auðvitað er ekkert að því að eiga efnislega hluti, ég var bara of upptekin af því. Það er svo margt annað í veröldinni sem gleður mig meira.
Nú svo versnar heilsan með hverju árinu, en ég verð glaðari. Ef ég væri hestur væri búið að skjóta mig. Ég skakklappast þetta einhvernvegin áfram kvölum kvalin, með bros á vör. Eitthvað er orðið lítið um brjósk á milli liða í hryggsúlunni, nú ég er með lungnaþembu, liðagigt, síþreytu, vefjagigt svo fátt eitt sé nefnt. Get ekki tekið nein verkjalyf nema íbúfen annað slagið, því ég er með óþol fyrir morfín skyldum lyfjum, og handónýtan maga, svo ég get ekkert annað gert en að tækla þetta á gleðinni. Enda breytist boðefnaframleiðsla heilans við hlátur og gleði, ég framleiði mitt eigið heimatilbúna verkjalyf. Svo vindur þetta enn frekar upp á sig. Vegna þess hversu glöð og sátt ég er, umber ég verki og vanlíðan mikið betur.
En að baki þessari góðu líðan liggur líka blóð, sviti og tár. Þetta heltist ekkert yfir mig eins og heilagur andi einn góðan veðurdag. Ónei. Ég hef farið til heljar oftar en einu sinni og dvalið þar. Kynnst mannlegri eymd á margan hátt, bæði hvað mig varðar og aðra. Ég hef verið lamin pínd og kvalinn árum saman. Ég hef gert skrilljón mistök, elskað, misst. Ég hef erfiðað á mestan hluta ævinnar , komist tvö skref áfram og nánast alltaf eitt afturábak, Ég hef glímt við ótrúlegustu veikindi hjá mér og mínum.
það sem ég hafði upp úr krafsinu var getan til að vera hamingjusöm no matter what. Ég að sjálfsögðu finn fyrir öllum litbrigðum tilfinningaskalans, sorg, söknuði, tilhlökkun, væntumþykju, reiði og svo framvegis, ég hins vegar hef miklu meiri stjórn á því hvaða tilfinning fær að vera ríkjandi.
Ég elska að vera til, er í pollýönnu syndromi alla daga og hef ekki hugsað mér að breyta því. að sjá tilbrigði í veðrinu, lesa góða bók, spjalla við samferðamenn, að upplifa leiða, einsemd, söknuð, tilhlökkun, og vonbrigði. Það segir mér að ég er á lífi. Einhverjum kann að þykja þetta vera einfeldni, barnaleg afstaða. En trúið mér, ég hef reynt að horfa á veröldina í gegnum gleraugu kaldhæðni, hroka, þjáningar og sjálfsvorkunnar. Ég hef reynt að taka töffarann á lífið. Ég hef reynt að öskra, andskotans, reiðast, ræða, grenja og ég veit ekki hvað, ekkert af því skilaði neinu fyrir mig nema meiri vanlíðan og þreytu.
Ég hef lært að setja mörk, bæði mér og öðrum. Ég nenni ekki orðið að æsa mig yfir fánýtum hlutum. Ég hins vegar ber hag allra í heiminum fyrir brjósti mér. Ég get grátið yfir örlögum bláókunnra manneskja hinumegin á hnettinum. Ég styð réttindabaráttu þeirra sem verða fyrir ofsóknum og rasisma af einhverju tagi. Allir eiga rétt á mannsæmandi lífi. Fyrir mér er veröldin eins og stór garður, fullur af margvíslegum og litskrúðugum plöntum, sumar eru einstakar, allar eru mikilvægar í því að mynda þennan garð og ég er þakklát fyrir að fá að vera meðal þeirra.
Elskurnar eigið góðan dag, og njótið lífsins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
Húsráðandi á harðahlaupum, yfirferð, og FRÍ !!!!!
19.10.2007 | 21:33
Fara Eystland ( más í astmasjúklingi ) hringja bjöllu ( innsog ) lengi, lengi ( meira más ) rúta fara, ( stuna ) gleyma veski ( og enn meira más ) pening. Að svo sögðu sá ég í iljarnar á henni út úr húsi, þar sem hún hljóp, ( skoppaði ) í áttina að umferðarmiðstöðinni. Reikna með því að hún hafi náð, hef allavega ekki heyrt í henni síðan.
Í dag var yfirferð í málunarkúrsinum og ég var mjög sátt við kríttíkina sem ég fékk. Framundan er viku frí sem ég ætla að nota í vinnu, og smááá ferðalög, klára ritgerð og læra Finnsku. Humm, voða hljómar þetta eitthvað mikið. Fer eftir helgi til Helsingi, í heimsókn í óperuna og svo til Turku þar sem ég ætla heimsækja Paulu vinkonu. En þar sem ég er ein heima um helgina, ætla ég að nota tækifærið og skutla mér í þetta fína nuddbaðkar, án hjálpar húsráðanda.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
Loftslagsbreytingar ógna friði í heiminum. ( fyrirsögn af mbl.)
18.10.2007 | 20:28
Nóbelsverðlaunin sýna að loftslagsbreytingar ógna friði" | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Villtur dans, innkaupakarfa og fleira.
17.10.2007 | 22:51
Það er orðin kúnst að ganga um eldhús húsráðanda þessa dagana. Þegar ég kem niður í eldhús á morgnana byrja ég iðulega á sama verkinu, AÐ LOKA ELDHÚSSKÁPUNUM, svo ég slasi mig ekki, annar hver skápur og önnur hver skúffa stendur nefnilega opin.
Því næst leita ég að kaffikönnunni, hef eiginlega snúið því upp í leik. Spyr mig spekingslega og klóra mér í hökunni, hvar skyldi hún hafa skilið hana eftir núna? Fann hana síðast inni á klósetti
Við þetta bættist svo ný þraut um helgina, og það er að sveigja framhjá drulluklessu sem hefur fengið að vera óáreitt á miðju eldhúsgólfinu. Sá blettur kom til af því, að eftir saunaprtýið góða um helgina. Þá fengu þær kellur sér að borða. Vinkona húsráðanda hafði opnað síldarkrukku og eitthvað hafði lekið á gólfið, hún hins vegar tók ekkert eftir því og steig galvösk í sullið.
Þar með hófst æðisgengnasti dans sem ég hef á ævi minni séð. Þetta atriði var hreinlega eins og úr teiknimynd,haha. Hendur fleygðust til og frá, fætur skvettust í óeðlilegar stöður, höfuðhnykkir þannig að ég hélt hreinlega að þetta væri ekki hægt og svo stóð þessi dans yfir í óratíma. Fyrir rest endaði konan á hillum sem voru á einum veggnum og náði á svipstundu að breyta allri uppröðun þar.
Innihald síldarkrukkunnar lá nú allt á gólfinu, og hvað haldiði að kellur hafi gert? jú teygðu sig í handklæði sem þær höfðu notað til að þurrka sig eftir saunabaðið og þurrkuðu slubbið upp með því. En þar sem engin þeirra var allsgáð, þá varð hluti eftir á gólfinu og hefur fengið að þorna og klístrast óáreittur síðan. ýmislegt annað hefur svo sem fengið að festa sig við klessuna, eitthvað úr sokkum húsráðanda t.d. því hún lætur nú ekki eina drulluklessu hræða sig og stígur óhikað í hana. Okkur hinum íbúum hússins finnst orðið fróðlegt að sjá hana breytast dag frá degi, og svo er það eiginlega orðið rannsóknarefni hversu vel húsráðandi þolir að hafa þetta þarna.
Hún kom hins vegar færandi hendi, þegar hún kom heim í dag. Hafði farið á þetta fína námskeið í Ítalskri matargerð og kom heim með afganga sem hún vildi ólm gefa okkur skiptinemum. Með góðum vilja og mikilli einbeitingu var hægt að finna bragð, en að ég kæmi því fyrir mig hvað það gæti verið var hins vegar erfiðara.
Annars fannst mér hún miklu flottari heldur en maturinn sem hún bauð uppá, þar sem hún rigsaði inn um dyrnar, með innkaupakörfu á hendinni. Karfan er merkt í bak og fyrir stórum súpermarkaði hér í grenndinni. Þetta notar hún hins vegar eins og aðrar konur nota veski. Finnst það svo fjári einfalt, þarf ekkert að gramsa til að finna hlutina, kíkir bara í körfuna og finnur það sem hana vantar.
Ég ætla hins vegar að notast við töskur og veski áfram.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Af tilfinningasemi.....
15.10.2007 | 18:35
Það sem ég er í mikilli þörf fyrir tilfinningalega nánd, gerði mér eiginlega ekki grein fyrir því hversu mikið ég virðist snerta fólkið mitt og vini fyrr en ég var búin að vera einhverjar vikur hérna í Finnlandi.
Það verður víst seint sagt um Finna að þeir séu eitthvað að kafna úr tilfinningasemi. Fékk staðfestingu á þeirri skoðun minni í tíma í dag. Kennarinn sem fræðir okkur um menningu Finna var að segja okkur frá rannsókn sem var einu sinni gerð á því hversu mikið pláss fólk þarf í kringum sig án þess að líða illa.
Spánverjar, Ítalir og einhverjir fleiri, þurfa að hafa um 70cm á milli sín. Þeir elska að snertast, faðmast og kyssast. Finnar þurfa hins vegar um 170cm, viljið þið spá! Það sem þeim finnst þeim vera þægileg fjarlægð, finnst mér varla vera kallfæri.
Máli sínu til stuðnings tók kennarinn dæmisögu af tengdaföður sínum og dóttur hans ( sem sagt eiginkonu sinni) Fyrir einhverjum árum síðan hafði hún farið til Ítalíu sem skiptinemi og dvaldi þar í eitt ár. Kennarinn tók það fram að mjög kært væri með þeim feðginum og sagði samband þeirra náið. Nú eftir árið kemur konan heim og faðirinn bíður með eftirvæntingu á brautarpallinum. Hvernig haldið þið svo að móttökurnar hafi verið? jaa ég veit allavega hvernig ég hefði tekið á móti ástvini. Ég hefði farið á handahlaupum upp hálsinn á viðkomandi og kysst og kjassað, óað og jæað. Pabbinn hins vegar rétti dóttur sinni höndina, horfði fast í augun á henni og það örlaði fyrir brosi. Dóttirinn lifði lengi á þessari minningu, pabbi hennar hafði ekki sýnt slíka viðkvæmni og tilfinningasemi síðan hún var lítil stelpa.
Fái Finnar sér hins vegar í glas eru þeir eins og blóðheitasta latínofólk . Þeir opnast upp á gátt og engu líkara er enn að þeir hafi verið bestu vinir þínir frá fæðingu. Ég varð vitni að því á föstudaginn var þegar ég fór á grímuball. Mér fannst það frábært og vel til fundið að brjóta ísin svona og hrista nemana saman. Þegar ég hins vegar kom í skólann í morgun var eins og þetta grímuball hefði aldrei verið haldið. Kennarinn kom svo sem inná þessa hegðun samlanda sinna og hughreysti okkur með þeim orðum að þeir væru bara svona, þetta væri inngróið í þjóðarsálina.
Æi mætti ég þá frekar biðja um tilfinningasemi
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
Stella í orlofi, eða ég í sauna.
14.10.2007 | 12:31
Mér var snarlega kippt úr þessu angurværa skapi sem ég var í, í gær. Húsráðandi var nefnilega búin að stefna til sín hóp af vinkonum í sauna og mat.
Þær drukku hverja rauðvínsflöskuna á fætur annarri fyrir saunabaðið og voru hressar í samræmi við það . Ég og skólasystir mín ætluðum í sauna á eftir þeim en fengum engu um það ráðið, maður reynir ekki að tala um fyrir húsráðanda þegar hún hefur innbyrgt rauðvín í einhverju magni.
Ég sat í sakleysi mínu inní herbergi þegar hún kom "nakin" auðvitað, stormandi inn og sagði að við yrðum að vera með þetta væri svo frábært. Tók svo í höndina á mér og dró mig niður.
Þar var mér skipað úr fötunum og ýtt beint undir ískalda sturtu. Ég var rétt að ná andanum þegar mér var svipt inn í sauna og sett þar á bekk innan um allar vinkonurnar. Svo hófst húsráðandi handa við að ausa og ausa í pottinn og talaði stanslaust allan tímann. Ég komst ekki að til að segja að það væri ansi heitt, svo fyrir rest varð ég að grípa fyrir andlitið, eða labba út með annarsstigs bruna á hornhimnunum hehe. Þegar mér leið við yfirliði var mér kippt út úr saunanu og aftur í ískalda sturtu. Ég ætlaði svo að setjast fram á bekk og jafna mig, eeen nei nei, ég vissi ekki fyrr en mér hafði verið skutlað ofan í þetta fína kröftuga nuddbaðkar og húsráðandi ( orðin vel við skál) stóð yfir mér með freyðisápu og dældi hálfum brúsa ofan í baðið. Ég mátti læsa fingurgómunum í baðkarsbrúnina svo ég yrði ekki eins og þvottur í þvottavél.
ER ÞETTA EKKI DÁSAMLEGT, sagði húsráðandi hátt og snallt að springa úr stolti, ætlaði svoleiðis að gera vel við útlendinginn mig. Ég komst ekki að til að svara, því umsvifalaust var mér aftur dembt undir ískalda sturtu og þaðan inn í sauna þar sem ég sat sem lömuð eftir þessa sjokk meðferð. Mér varð hugsað til myndarinnar STELLA Í ORLOFI.
Seint og um síðir skreið ég út úr saunaklefanum, baðaði mig og skreiddist uppgefinn í ból, en maður minn, það sem ég svaf vel . Ég er ekki frá því að ég vilji endurtaka þetta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Söknuður og tregi.
13.10.2007 | 20:04
Ég hef verið í angurværu skapi í dag, Sakna fjölskyldunnar og vinanna. Þegar þannig tímabil koma finnst mér voða gott að hlusta á ipodinn minn og láta hugann reika.
Var að hlusta á snillinginn Pétur Ben, sem ég fæ aldrei nóg af og ákvað að skrifa niður texta eftir hann og senda á börnin mín og barnabarn. textinn lýsir vel tilfinningum mínum til þeirra.
Reyndi að setja lagið inn í tónlistarspilarann en einhverjir tæknilegir örðuleikar eru gangi hjá mér, huhumm. Ef þið viljið heyra lagið við textann, jaaa, þá verðið þið bara að kaupa diskinn hans, mæli reyndar eindregið með honum.
En svona er textinn:
If i was a tree
i,d let you nest in me
and grow my leaves
around your little home
and if i was the sea
i,d let you walk on me
and always catch
your arm before you fall
if i was the wind
i,d gently kiss your skin
and wisper words
of love in to your ear
and if i was a fire
though it were my hearts desire
i,d never touch
a hair on your head
and if
i fall a slepp
a bit to heavy
a bit to depp
and never wake
up again
you know i love you
and even then
i,ll be here
if i was the night
i,d turn the moon on bright
so you could find
the safest way home
and if i was the day
i,d call the birds to say
...........
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Smá blogg frá Finnlandi.
13.10.2007 | 11:45
Mmmmmm, laugardagur runninn upp og nægur tími til að lesa blogg og blogga sjálf, hristist reyndar í takt við tónlist sem einhver í götunni ákvað að deila með nágrönnum sínum, kannski ekki alveg það sem ég hefði viljað heyra núna, (þetta er svona næturklúbba reif tónlist) ég nefnilega var á grímuballi í gær og er soldið slæpt eftir það. Á ballinu var samankominn fjöldinn allur af nemendum úr hinum og þessum skólum, nokkur hundruð manns, og þarna voru margir frábærir og frumlegir búningar og svakalegt stuð. Ég sjálf klæddi mig upp sem Frida Kalho, og var alsett blómum í hárinu og auðvitað með þessar líka flottu augabrúnir.
Síðustu dagar hafa verið mjög annasamir því einungis vika er eftir af kúrsinum, svo ég mála stundum langt fram á kvöld. Ég hef þó gefið mér tíma í að fara á myndlistarsýningar svona inn á milli, enda er það lærdómur líka.
Mér var boðið á opnun, í Listasafn borgarinnar á fimmtudaginn var, komst þar í kynni við konu sem vinnur í óperunni í Helsinki. Hún vinnur við það að gera sviðsmyndir og props. Hún bauð mér að koma í heimsókn og ætlar að sýna mér starfsemina, og kynna mig fyrir staffinu, fyrir mig er það mjög áhugavert þar sem ég hef sjálf unnið í leikhúsi. Maðurinn hennar vinnur hins vegar í borgar leikhúsinu í Lathi og hann bauð mér miða á sýninguna Cats sem á að fara sína eftir nokkra daga.
Annars er frábært veður hérna í dag, heiðskírt og kalt, samt ekkert of kalt, ég fór út á lóð áðan til að teyga í mig daginn og fylgdist með íkornum og fuglum safna forða fyrir veturinn. Einhverra hluta vegna er þetta alltaf minn besti árstími, kannski vegna þess að allskonar áhugaverð starfsemi fer í gang, skólar komnir á fullt og einhver notalegur rytmi er í gangi.
En nú er víst kominn tími á smá tiltekt því húsráðandi ætlar að halda matar og sauna partý, þessi elska var nefnilega fjarverandi þegar tiltektarhæfileikum var úthlutað, svo ég ætla að hjálpa til.
Þangað til næst
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Krummu ungi á afmæli í dag.
10.10.2007 | 10:05
Í dag á yngsta dóttir mín afmæli. Er orðin 15 ára, finnst hún þó oft vera eldri því hún er svo fjári klár stelpan. Ég má til með að monta mig aðeins af henni.
Í vöggugjöf fékk hún nefnilega vel úthlutað af greind, skemmtilegheitum og hæfileikum. Stúlkan er með afbrigðum fyndin, mikill friðar og umhverfissinni, er grænmetisæta með meiru, spilar á trommur, gítar og hljómborð. Hún má ekkert aumt sjá, og hefur sanngirni að leiðarljósi í lífi sínu.
Þessi elska hefur blessunarlega sloppið við að vera gelgja, og svo finnst henni frábært að fara með mömmu eða Pabba, á kaffihús, þar sem við ræðum heimsins gagn og nauðsynjar.
Beta mín til hamingju með daginn, hlakka mikið til að koma heim og þá ætla ég að knúsa þig og kreista.
Mina rakasta sinua mamma.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Af Rússlandsför og fleira.
9.10.2007 | 21:29
Arrrg var búinn að skrifa heillangann pistil en ýtti á vitlausan takka, og búmm pistillinn hvarf.
Langaði nefnilega að segja ykkur frá því að ég fór með Jakub skólabróa í dag að athuga með ferð til Rússlands, og þvílíkt vesen.
Fylla þarf út allskyns pappíra og umsóknir, þar þarf að koma fram auk annars, hvenær maður hyggst koma inn í landið og hvernig. Hvort maður komi með bíl eða lest. Velji maður bíl þarf að gera grein fyrir honum, gefa upp númer og svoleiðis. Hversu mikla peninga maður hafi meðferðis, hversu lengi, upp á dag maður ætli að vera. Ástæður fyrir dvölinni, redda þarf ferðatryggingu frá heimalandi sínu, nýrri passaljósmynd, staðfestingu frá skóla um að maður sé nemandi og fleira og fleira. Ofan á fastan kostnað við visa, útfyllingar á pappírum, kaup á lestarmiða, og hóteli, leggst aukagjald, þannig að ferðin verður miklu dýrari heldur en við héldum.
Jakub sá fram á að hafa ekki efni á þessu og ég þori ekki að fara ein, mafían er á öllum götuhornum og fyrir utan það að sárafáir tala ensku.
Ég þessi saklausa manneskja hélt að það væri nóg að fá visa, og svo gæti ég bara skutlað mér upp í næstu lest! Þetta er nú meira skrifræðið í þessu landi.
Kannski ég skelli mér í staðinn til Eistlands í skólafríinu, reyndar mjög einfalt og ódýrt að fara þangað, nú eða til Turku, þar á ég reyndar heimboð frá Paulu vinkonu minni.
Fram undan er grímuball í skólanum og við Jakub ákváðum að fara í verslunar leiðangur í second hand búðir, bæði vegna grímuballsins og svo fannst okkur það smá sárabót vegna þess hvernig fór með Rússlandsför.
Jakub fann þennan líka flotta kjól, sem ég girntist líka en honum fannst hann bara svo flottur, og mér fannst það svo fyndið að ég ákvað að lúffa og láta honum eftir kjólinn. Svo sagðist hann langa í ljóshærða hárkollu og blá augu, ha sagði ég sljó... en þú ert með blá augu, já sagði hann... það einfaldar málið til muna. haha, góður.
Ég ætlaði ekki að trúa því þegar mér var sagt að það væru seldir áfengir drykkir á ballinu og það með leyfi skólayfirvalda. Jakub fannst það nú ekki mikið, sagði mér frá því hvernig þetta var í Austurríki þar sem hann var nemandi áður. Þar eru kennarar og nemendur að staupa sig og reykja á fyrirlestrum, og engum finnst það skrítið. Reyndar er fólk að því um allann skólann, alla daga.
Ja, misjöfn er menningin.
Annars þarf ég að fara drífa mig í háttinn, er að sofna ofaní lyklaborðið og það er svo djö..... óþægilegt að sofa þar.
Þangað til næst
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)