Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
33 ára samvist lokið....
21.5.2008 | 16:58
Ég kynntist henni sem barn....varð háð henni um 10 aldurinn og hún hefur fylgt mér hvert sem er
stundum verið styrkur en líka oft verið til ama og trafala
Hún hefur hægt og rólega verið að drepa mig
ég er komin með sjúkdóma af hennar völdum
en nú er ég hætt...finido... ég sagði henni upp
jú...ég er hætt að reykja
húrra fyrir mér...ég væri að ljúga ef ég segði það auðvelt....ég er geðstirðari en andskotinn
hringi út um allar trissur og rífst yfir öllu...hef líka komið mörgum málum í gegn sem hefði ekki gengið svona fljótt fyrir sig annars..
Húsband er í margra daga vinnuferð um landið, kemur heim í mýflugumynd eftir nokkra daga og ríkur þá til útlanda á ráðstefnu...hann tók utan um mig og kyssti mig þegar hann fór og sagði....ég elska þig...en mikið svakalega er ég feginn að vera ekki heima næstu dagana... jú ég skil hann, ég er líka feginn,hann þarf þá ekki að tipla á tánum í kringum mig næstu daga
en svo auðvitað fer þetta batnandi.....
meira að segja börnin eru að heiman....miðjubarn vinnur í mývatnssveit og sú yngsta er að leggjast í ferðalög næstu daga, þannig að ég ætla fá útrás á striganum...mála eins og vitfirringur í orðsins fyllstu....
Ég hef gefið vinum mínum og mínum nánustu leyfi til að sparka í sköflunginn á mér...setjast ofan á mig...binda mig niður, beita öllum þeim ráðum sem þeim dettur í hug ef það svo mikið sem hvarflar að mér að fá mér sígó
djö.....sem ég er ánægð með mig....
Vorboðinn ljúfi
19.5.2008 | 08:45
Þá finnst mér vorið loksins komið, við heimilisfólk skruppum nefnilega í Mývatnssveit í gær til að heimsækja miðjubarnið sem vinnur þar á hóteli
Þar sem við keyrum um sveitirnar mátti finna ilminn af skít sem bændur voru að bera á túnin og alveg er það merkilegt að manni skuli hlýna um hjartarætur við skítalykt.....
Við keyrðum um Mývatnssveitina og stoppuðum reglulega til að kjá framan í dýrin....jörmuðum á móti litlu nýfæddu lömbunum og gögguðum með hænunum og rétt sem snöggvast langaði mig að verða aftur lítil stelpa í sveit...
Við kíktum við í stóru gjá, fórum þar fyrir 5 árum síðan..klöngruðumst þá niður klettana og tróðum okkur ofan í gjána, þetta er örlítið op þar sem kaðal spotti er festur við klettaveginn svo maður geti látið sig síga ofan í vatnið....það er einhver sjarmi við það að berhátta sig í drullusvaðinu og skutla sér svo ofan í níðþrönga gjánna , hvergi hægt að botna, þannig að maður verður veskú að troða marvaðann..svolítið eins og maður sé orðin þátttakandi í survival Iceland....
Annars lætur miðjubarn vel af sér, líkar vel vinnan og staðurinn.....það er nú þegar allt orðið fullt af túristum en henni finnst dapurlegt að það skuli vera Íslendingar sem eru mestu sóðarnir og mestu dónarnir.....maður getur ekki annað en vonað að erlendir túristar verði ekki fyrir barðinu á þessum dónaskap því ferðamaðurinn segir auðvitað vinum sínum frá ferðalaginu þegar heim er komið
Hún segir líka að ótrúlega margir segi frá því að hafa fengið áhuga á landi og þjóð á því að hlusta eða heyra um Björk og Sigurrós sem er auðvitað frábært þó þetta listafólk eigi ekki stóran aðdáenda hóp hér á landi þá kunna aðrir að meta þá..
En mikið er nú Ísland fallegt, við ætlum okkur að reyna ferðast sem mest innanlands í sumar, það er sko ekki leiðinlegt að ferðast með húsbandi...hann þekkir hverja þúfu og hvern hól og gott betur enn það enda Umhverfisfulltrúi ferðamálastofu...væri varla í því starfi ef enginn væri þekking á landi og þjóð....
Dagurinn kallar og mörg verkefni framundan.....í bili.
Og fortíðin bankar uppá.....
5.5.2008 | 23:34
Ég sá auglýsingu um efnisinnihald í næsta kompásþætti...og fór mörg ár aftur í tímann, rakst á gamalkunna sorg, heilsaði henni en kvaddi jafn skjótt aftur.....lífið er bara of gott til að púkka um á svoleiðis vinkonur.
Á ákveðnu tímaskeiði í mínu lífi urðum við samferða ég Stulli og Einar...reyndar áttum við að heita kærustupar um tíma ég og Stulli...saman tókum við þá ákvörðun að breyta lífi okkar...mér tókst það, þeim ekki. Það verður fróðlegt að sjá hvað Kompásmenn hafa grafið upp því ég heyrði strax eftir dauða þeirra að ekki hefði verið um sjálfsvíg að ræða....og hef ekki frekar en aðrir fengið nein svör.
Þangað til næst....
Allir í sjöunda himni....
5.5.2008 | 18:13
Takk öll fyrir fallegar kveðjur.....hér koma svo fyrstu myndir af litlu maí sólinni....er svo lánsöm að eiga tvær, 2 maí og 5 maí.
Myndgæðin eru ekkert sérstök því auðvitað gleymdi ég myndavélinni heima í öllum spenningnum, reddaði mér á símanum.....
Litla snótin fæddist svöng, er búin að vera á brjósti síðan hún kom í heiminn en svo þurfti mamman að hvíla sig þá reddaði maður sér bara með því að sjúga fingurinn..
Annars segir Birna ömmusystir að hún sé bara eins og aðrir í fjölskyldunni...lítil og sísvöng.....
Litla maísólin hjá ömmu Krummu...
Og hér rekur maður bara út úr sér tunguna, til hliðar sést í bros á mér sem reyndar hefur ekki farið af mér í allan dag og í bakgrunninn sést í mömmuna sem er orðin ansi lúin eftir svefnlausa nótt og strembinn dag
Mig langar upp á húsþök.....
5.5.2008 | 12:43
Og hrópa hástöfum...ÉG ER ORÐIN AMMA...
Myndarlega stúlka kom í heiminn rétt rúmlega 9 í morgun..14 merkur og 51cm.
Hér á bæ hefur lítið verið sofið..húsband gafst upp kl 5 í morgun og fór út að hlaupa frekar enn að gera ekki neitt, ég sat hins vegar út á svölum og drakk kaffi og mökkaði( jú.. ég er að fara hætta, byrja á lyfjum eftir viku)
hef verið í símanum meira og minna í allan morgun við erum stór fjölskylda og allir biðu frétta...en nú fer ég að mynda nýjasta fjölskyldu meðliminn...set inn myndir seinna í dag.
Tralla lalla la....lífið er dásamlegt...
Eintóm hamingja......
4.5.2008 | 01:20
Þetta er nú meiri dýrðarinnar dásemdar dagurinn....það var glampandi sól og 10 stiga hiti í dag.
Húsband reif sig upp fyrir allar aldir og fór út að hlaupa með hlaupahópinn sinn...var svo uppveðraður eftir það að hann rauk beint í tiltekt eftir að hann kom heim...ég vaknaði við skarkalann og ilmandi kaffilykt, mikið sem ég elska laugardaga það er svo gott að geta tekið því rólega, flett blöðum spjallað við húsband og drekka saman morgun kaffi
Við skelltum okkur svo í bæinn um miðjan daginn..kíktum á kaffihús og nokkrar myndlistar sýningar
Nú erum við farin að telja niður í klukkutímum eftir að nýja barnabarnið komi í heiminn..móðirin er lögst inn á sjúkrahús og verður skorin á mánudagsmorgun...hlakka alveg svakalega til
Ég er komin aftur.....loksins
1.5.2008 | 00:07
Þá er þessari vinnutörn að mestu lokið, Þetta var er erfitt en mjög skemmtilegt. Ég er búin með lokaverkið og próf. Nú erum við á fullu í að undirbúa vorsýningu skólans sem verður helgina 10 og 11 maí.....allir að mæta.
Mitt í þessari vinnutörn biluðu báðar tölvur heimilisins... sem kannski var bara gott því mér veitti ekki af öllum tímanum í vinnu, hefði sjálfsagt annars slugsast í tölvunni í stað þess að vinna eins og vitleysingur.
Ömmuskottið mitt á 5 ára afmæli á föstudaginn ( 2 maí) en hún hélt upp á það um síðustu helgi....það urðu sko snögg umskipti á þeirri stuttu,enda ekki á hverjum degi sem maður býður fólki í 5 ára afmæli. Hún dubbaði sig upp í hettupeysu og víðar töffarar buxur, æfði svo töffara takta af miklum móð, ....hey jo mátti heyra á milli þess sem fingrahreyfingar og göngustíll var æfður, svo átti að drífa sig í búð með pabba en þá vandaðist málið. Í forstofunni voru gelluskór og barbý skór en engir töffaraskór...þegar búið var að máta alla skó við outfittið endaði hún háskælandi í rósóttum stígvélum og á milli ekkasoga heyrðist...ég lít út eins og bóndi...
Hér er svo lokaverkið..enn á trönunum
Ég kalla það: einskonar sjálfsmyndir.
Í verkum mínum hef ég mikið unnið út frá tilfinningum og langaði mig að mála portrait myndir af þeim, fyrir valinu urðu dætur mínar þrjár en um leið eru þetta einskonar sjálfsmyndir , þær eru jú ákeðin framlengin á mér.
Ég ákvað að leggja áherslu á augu, eyru og munn....ég vil sjá og upplifa með börnunum mínum...ég vil heyra hvað þær segja mér...og vil eiga tjáskipti við þær.
Það er eitt að horfa og annað að sjá, eitt að heyra og annað að hlusta, eitt að tala og annað að tjá
( hver mynd er 120x90)
Svartur hundur og klám....
4.4.2008 | 01:10
Well.....er komin aftur. Svartur hundur kom í heimsókn, óboðin og gerði smá usla en.....ég er laus við hann núna. Hann á þetta til og tekur þá gjarnan með sér drauga úr fortíðinni en þá bretti ég upp ermar og glími við þá íslenska glímu ( djók) hef fram að þessu sigrað og mun örugglega halda því áfram.
Er að safna mér saman svo ég geti farið á fullt í lokaverkefnið, er búin með undirbúningsvinnu og nú er bara að einhenda sér í að mála, ekki veitir af, einungis 2 vikur fram að skilum.
Ég þurfti að fara í húsasmiðjuna til að ná mér í efni...venjan er að hringja og panta, gefa upp mál og sækja síðar...ég ákvað að skutlast þetta bara og vita hvort ég fengi ekki afgreiðslu strax.
Fann eftir smá leit mann sem gat afgreitt mig, hann sagaði niður efnið og rölti svo inn á skrifstofukompu sem var þarna til að skrifa niður fyrir mig málin, ég þurfti nefnilega að borga annars staðar.
Ég rölti í humátt á eftir honum, sá hvar hann sneri baki í mig en fyrir framan hann var tölva......ég ætlaði ekki að trúa mínum eigin augum, í tölvunni blasti við mér klámmynd...ég horfði upp í budduna á konunni......maðurinn verður mín allt í einu var...greinilega ekki vanur því að fólk komi þarna inn, fer í fár og djöflast á músinni svo myndin hverfi, réttir mér miðann og strunsar í burtu......eftir stóð ég með kjálkann niður á höku og var enn þannig þegar ég kom út í bíl.
Að skoða klobba heima hjá sér er eitt....en að gera það í vinnunni ætla að hringja í yfirvald húsasmiðjunnar á morgun og láta vita af þessu, ég er viss um það að menn hafa ekki leyfi til þess að nota tölvur húsasmiðjunnar í þessum tilgangi.
Að öðru....er að fara suður með húsbandi og afkomendum í eitt stykki fermingarveislu....og hlakka til að hitta vini og ættingja...
ble á me.....
Sprautur, nömm og köff.....
19.3.2008 | 14:29
Ég hentist upp á sjúkrahús í morgun til að fara í baksprautur....kom við í vinnunni hjá húsbandi og kippti honum með, hann skyldi sko horfa upp á þjáningar mínar og vera mér til halds og trausts, ekkert fútt í að þjást einn.
Gekk kokhraust inn á röntgen en var komin með angistarsvip þegar ég var lögst á fjölina undir tækinu.
Hik kom á lækninn þegar hann snaraðist inn og sá húsband standa þarna, haldandi í höndina á mér eins og það væri að fara fram aftaka og sagði: uuuu ummm sko .......hafðu stól nálægt þér góurinn, við höfum allt of oft fengið hér inn hugprúða menn sem hníga svo í gólfið þegar ég byrja að stinga, hef meira að segja þurft að sauma þá saman eftir að vera búin að sinna sjúklingnum.
Húsband lét sér hvergi bregða enda öllu vanur maðurinn, leyfði mér að kreista á sér höndina þegar læknir fór að stinga, hann kreisti bara á móti svo ég myndi ekki handarbrjóta hann og strauk mér svo um kollinn eins og litlu barni.
Þegar ég hökti svo út í bíl á eftir fór hann óðamála að lýsa fyrir mér hvað þetta hefði nú verið magnað, þú hefðir átt að sjá nálina, hún var svona löng( handarhreyfing) og hann var svo öruggur, stakk og rakst á bein en færði þá nálina þangað til hún var komin á sinn stað og þetta gerði hann SEX sinnum!!!! að hann skyldi ekki stinga í gegnum þig......... ég horfði á hann grimmum augum...... heldurðu að þetta hafi farið fram hjá mér?????
Nú nýt ég þess að liggja fyrir og láta stjana við mig, allt samkvæmt læknisráði....ét nömm, drekk köff og horfði á vídeó
What a life.....LOKSINS....
18.3.2008 | 13:24
Já loksins er ég komin í langþráð páskafrí eftir að hafa verið meira og minna í skólanum síðustu vikur. Ákvað í tilefni þess að henda inn einni færslu en horfi löngunar augum á moppuna og tuskuna og klæjar í puttana að taka til hendinni hér heima.
Fæ alltaf þessa ótrúlegu löngun í gera kósý þegar ég hef verið lítið heima við, var svona þegar ég var úti í Finnlandi....sá moppur og tiltekt í hillingum ég veit....þetta er ekki alveg í lagi, ég bara kemst oft í svo mikið stuð, set skemmtilega tónlist á og svo er skrúbbað og skúrað þangað til allt glansar og ég brosi hringinn yfir vel unnu verki. Kannski eru þetta svona Feng Súí áhrif, þið vitið, maður endurnýjar orku heimilisins og hjá sjálfum sér.
Svo verður svaka stuð um páskana, fæ Lollu vinkonu í heimsókn með alla fjölskylduna, hlakka mikið til, planið er að fara í fjallið á skíði, þó verð ég sjálfsagt bara á þoturassi er nefnilega að fara í baksprautur á morgun og verð að taka því rólega næstu daga á eftir, enda svo sem aldrei verið mikil skíðamanneskja eins og húsband sem keppti í skíðastökki í gamla daga....rosalega flottur. Nú eða ég verð á hliðarlínunni og peppa alla áfram....finnst það líklegast.
Svo fer að styttast í að brói komi í heimsókn frá Chile...hann er væntanlegur í apríl, ég hef ekki séð hann í tæp tvö ár, ja nema á myndum en það er auðvitað ekki það sama, tók eftir því að hann er að eldast, hárið að þynnast og svona en hann er bara flottari, svo lengi sem hann fer ekki í hárígræðslu sé fátt kjánalegra en þunnhærða menn með doppur í höfuðleðrinu eftir hárísetningu.
Er farin í tiltekt......