Bloggfærslur mánaðarins, október 2007
Held það hafi slegið aðeins útí fyrir mér.
30.10.2007 | 19:24
Merkilegt hvernig maður er. Áður en ég fór út hlakkaði ég mest til að losna frá heimilisstörfum, sá að ég myndi nú hafa allan heimsins tíma bara fyrir sjálfa mig.
En mikið ferlega er það nú þreytandi til lengdar, að hugsa bara um rassgatið á sjálfum sér.
Nú sé ég það í hyllingum að elda heima hjá mér og hanga á moppunni. maður er náttúrulega ekki í lagi.
Ég sá það líka í hyllingum hvað allt yrði nú auðvelt þegar börnin yrðu stór, nú eru þau stór og ég vildi gjarnan að þau yrðu ogguponsu lítil aftur. ég sé í rósrauðum bjarma brjóstagjöf og knús og kjass, þykist auðvitað ekkert muna eftir því þegar ég var það örmagna eftir næturgrát barnanna að húsbandið varð að teygja sig í brjóstið og leggja barnið á spena svo það fengi nú einhverja næringu, og ég var nánast rænulaus á meðan. Svo auðvitað skreið hann ósofinn í vinnuna á morgnana.
Ég held að þetta sé elli merki þegar maður man bara það góða og sér jafnvel hlutina betri en þeir voru. Kannski sem betur fer, ætli ég væri ekki vitskert öðruvísi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Pirripirripirr pirripirr pirripirri pirr pirripirr...........
29.10.2007 | 22:05
Ég fór í smá yfirhalningu á hárgreiðslustofu í dag, sem væri varla í frásögur færandi nema fyrir það að auðvitað lenti ég á konu sem var svo varkár í öllum hreyfingum að það var að gera mig..... BRJÁLAÐA.
Ég þoli ekki að fara í hárþvott hjá fólki sem nuddar hársvörðin svo laust að það jaðrar við að vera kítl. Allt sem konan gerði var í samræmi við hárþvottinn, greiðunni var strokið OFUR hægt..... um hárið, hún klippti ofurhægt...... og talaði ofurhægt. ........
Ég var 3 tíma í stólnum hjá henni af því hún var svo hæg. Viljiði spá í 3JA TÍMA PIRRINGI.
Það er eins gott að ég er dagfarsprúð kona en hefði ég þurft að vera mínútu lengur hefði ég öskrað á hana.
Ég get bara ekki að því gert en svona meðferðir virka ekki á mig eins og slökun, ég verð hins vegar trítil óð
Ég hef líka lent á svona sjúkraþjálfurum, sem þykjast vera nudda en koma varla við mann máttleysislegar strokur eftir bakinu eru bara ekki að gera sig. Mig langar að taka svona fólk og hrista það.
ARG ég get orðið svo pirruð, þetta er eins og klæja stanslaust í nefið.
Djö.... hvað er djúpt á pollyönnu núna.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Halló, hefur einhver séð færsluna mína?
29.10.2007 | 16:20
Haldið að ég hafi ekki týnt nýjustu færslunni minn. Ég kom heim frá Turku í gær og skrifaði pistil um þá ferð, birti hann að ég taldi en...... finn hann hvergi. Veit ekki hvað ég hef gert sem varð þess valdandi að ég finn hann ekki. Allavega nenni ég ekki að skrifa allt aftur, en í stuttu máli sagt, þá var þetta nú samt skemmtileg ferð. Turku er mikið fallegri borg heldur en Lathi og fólk þar er opnara og líkara því sem maður á að venjast að heiman.
Hér er enn ágætis veður, snjólaust en það frystir örlítið á nóttunni, ekki það að ég hef ekkert á móti kulda og snjó, það er helv..... slabbið sem ég þoli ekki, það verður allt blautt og maður einhvern veginn veit aldrei hvernig á að klæða sig.
Það styttist óðum í heimför hjá mér, rétt rúmir 30 dagar eftir, já ég er sko farin að telja niður og er á stundum viðþolslaus af tilhlökkun, ég má hafa mig alla við til að halda einbeitingu við námið. Nú reynir á að nota pollyönnu takta á tilveruna.
Ég dauðöfundaði húsbandið um helgina, hann fór í afmæli til frænda og vinar en þar sem þeir eru samankomnir er alltaf gaman, eftir afmæli fór hann á ball með vinkonum okkar í heimilistónum, ég hefði svo gjarnan viljað vera þar, enda engu líkt að skemmta sér með þeim. En koma tímar og koma ráð. En nú verð ég að einhenda mér í námið, öðruvísi hefst þetta víst ekki, þangað til næst. BLE BLE.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
ÖR-BLOGG.
25.10.2007 | 23:05
Jæja elskurnar þá er það ör-blogg, það er nefnilega löngu kominn háttatími hjá mér þegar þetta er skrifað, er bara svo upp tjúnnuð að ég get ekki sofnað.
Á morgun ætlum við óskar skólabrói að fara í helgarferð til Turku, ætlum að heimsækja Paulu vinkonu okkar, þannig að.... ég verð að lifa án þess að blogga eða lesa blogg.
Á mánudag byrjar svo nýr kúrs hjá mér, mjög spennandi, ég skráði mig í grafík/ prent, hef svo sem farið í þannig kúrs áður, en þetta er tilbreyting og í raun allt annað en að mála. Ég er búin að staðfesta það að ég fari heim 1 des, og ég get varla beðið. Þá verð ég búin að vera hér í 3 mánuði og lengur get ég bara ekki hugsað mér að vera frá fjölskyldu sem fer óðum stækkandi. Hundur dóttur minnar eignaðist 4 hvolpa í dag og fékk ég beinar lýsingar af fæðingu, var á tímabili að missa mig yfir þessu öllu saman. En það besta er og nú má ég kjafta ( hef þurft að þegja svo lengi ) er að dóttirin sjálf er ólétt, ég er semsagt að verða amma í annað sinn.
er farin í háttinn og bið að heilsa í bili
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Finnlandsfari í sundi.
24.10.2007 | 08:55
Haldið að ég hafi ekki farið í sund í gær. ójú, ég var alveg orðin uppiskroppa með afsakanir fyrir því að fara ekki. Nú skyldi tekið á því, ætlaði að synda úr mér verki og stirðleika og slaka svo á í heita pottinum á eftir, enda fátt betra en sund gegn stirðleika. Ég mæti galvösk á svæðið og ætla vippa mér úr útiskónum en er rekinn inn í klefa með hneykslunarsvip starfsmanns og vinsamlegast beðinn um að fara úr þeim inni.
Nú ég hlýddi, fór úr skóm og öðrum fatnaði, þrammaði yfir grútskítugt gólfið og beint í sturtu, þorði samt ekki annað en að skoða í kringum mig til að sjá hvort ég væri örugglega ekki að gera eins og hinir. Jú, hefðbundinn þvottur virtist eiga sér stað áður en fólk fór í laugina.
Ég stormaði úr sturtu og í laug. Ég hefði betur staldrað við og skoðað aðstæður. Ég nefnilega vissi ekki fyrr ég var allt í einu komin í röð af syndandi fólki. Sá í hendingu að sá partur af lauginni sem ætlaður var fyrir almenning var örmjór. Ég hef aldrei á ævi minni synt eins hratt, sló persónulegt hraðamet. Það kom reyndar bara til af því að sá sem á undan mér fór syndi eins og um keppni væri að ræða, og ekki vildi ég verða til þess að skemma rythman í röðinni. Eftir 4 hringi ( jú við syntum í hringi, maður varð að beygja á öllum hornum) var ég gjörsamlega búin á því, bæði vegna hraðans og svo var mér auðvitað brugðið yfir þessu fyrirkomulagi.
Ég náði einhvernvegin að klóra mig út í horn án þess að skemma taktinn og kasta þar mæðinni dágóða stund, lét eins og ég væri þarna á hverjum degi og gerði ekkert annað en að synda í röð ákvað að taka nokkra hringi í viðbót enda kom ég þarna til að hreyfa mig. Varð að sæta færis á því að komast í hringinn, sá smá glufu, spyrnti eins fast og ég gat frá bakkanum og endaði uppí klofi á næsta manni.
Auðvitað var sundgarpurinn sem stjórnaði hraðanum löngu farin, sá sem hins vegar stjórnaði núna var þvílíkur hægfari að ég mátti troða marvaðann í 4 hringi ef ég ætlaði ekki að drukkna þarna. Það var ekkert pláss til að taka fram úr.
Ég neytti síðustu kraftana í að klóra mig upp úr lauginni og í heita pottinn.
Þegar ég fékk rænu aftur sá ég og fann að þetta var enginn venjulegur pottur. Í honum voru nefnilega túður af öllum stærðum og gerðum. Skyndilega fer allt á fleygiferð og á því andartaki sá ég skiltið fyrir ofan pottinn sem á stóð ( á Finnsku auðvitað) MEÐFERÐAR POTTUR. Ég var skyndilega barinn með vatni í herðarnar, krafturinn var svo mikill að ég gat ekki hreyft hendurnar. Sundbolurinn teygðist auðvitað út í miðjan pott, en það sem var fyndnast var það að engum þótti það athugavert. Ég hélt áfram að láta eins og ég væri þarna á hverjum degi. skyndilega stöðvaðist vatnið og túða sem staðsett var rétt við afturendann á mér fór í gang. Þvílíkt snarræði sem ég sýndi, með því að klemma kinnarnar saman, hefði annars fengið þarna ókeypis stólpípu. Svo tók hver túðan við af annarri.
Þegar potturinn stöðvaðist skreiddist ég upp úr og inn í sturtu. Þar er hægt að velja um 3 saunaklefa. Ég valdi Tyrknest sauna, kannski eins gott að ég fór í sauna, veit ekki hvernig ég væri annars í dag, sennilega í rúminu, því ég er eins og áttrætt gamalmenni í dag, get með naumindum slegið á lyklaborðið, hvað þá staulast stigana, enda hef ég ekki troðið marvaðann í 30 ár. Ég ætla hins vegar aftur í sund við fyrsta tækifæri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Smá update frá Finnlandi og sjálfsmynd í orðum.
23.10.2007 | 11:38
Meira hvað þetta blogg er mikill tímaþjófur. ég á að heita vera í viku fríi frá skólanum, þarf svo sem að vinna í því fríi en einhvern veginn afkasta ég minna þegar ég hef minna að gera, þá drolla ég bara í tölvunni lesandi blogg hægri vinstri eins og ég sé á launum við það. Þannig að kæru bloggvinir, aðrir vinir og vandamenn ,látið ykkur ekki bregða þó minna heyrist í mér næstu daga, verð nebbla að ljúka ákveðnum verkefnum í vikunni þá þýðir ekkert að vera límdur við bloggið, er svo djö.... erfitt að lesa á tölvuskjáinn og mála á sama tíma.
En svo ég leyfi ykkur að fylgjast með hvað ég hef verið að brasa síðustu daga( annað en að lesa blogg) Þá fórum við nokkur saman út að borða á föstudagskvöldið, bæði til að fá almennilegan mat og svo til að halda upp á það að þessum kúrs var að ljúka.
Fyrir valinu varð indverskur veitingastaður. Þar tók á móti okkur þjónn sem vildi ólmur vita hvaðan við kæmum og hvort við værum búsett í Finnlandi og hversu lengi við ætluðum að vera og og og og svona dundu á okkur spurningarnar. Eftir að hafa fengið tæmandi upplýsingar um allt sem hann taldi sig langa og þurfa að vita, bilaðist hann af spenningi. Nuddaði saman höndunum í mikilli geðshræringu og spurði: má ég elda handa ykkur bragðsterkan mat? Finnar nefnilega vilja einhverra hluta vegna ekki hafa bragð af matnum sínum. Þeir Finnar sem slæðast hér inn, eru skíthræddir við matinn okkar, við bjóðum uppá sterkt, medium og mild, eeeenn, erum samt búnir að dempa allt niður. Þannig að það sem telst vera sterkt á matseðli er bara milt fyrir okkur.
Nú við auðvitað pöntuðum sterkan mat og horfðum á eftir þjóninum inn í eldhús, hann svo sem reyndi að ganga virðulega, gat bara ekki hamið gleði sína sem ég skil vel, þannig að göngulagið minnti á mann í göngukeppni, mjaðmahnykkir og alles. Það besta var þó að heyra fagnaðarlæti innan úr eldhúsinu,hehe. Nú maturinn var í einu orði sagt frábær og við ætlum á þennan veitingastað aftur við fyrsta tækifæri. Eftir matinn bauð þjóninn upp á indverskt kaffi í boði hússins, og þvílíkt kaffi, fólk var farið að líta á okkur því frygðarstunurnar sem komu frá borðinu okkar jöðruðu við að vera dónó.
Eftir mat, röltum við svo á pöbb og hittum skólafélaga, þar sátum við í góðu yfirlæti langt fram eftir kvöldi og ræddum heimsins gagn og nauðsynjar.
Annars er ég alltaf að springa úr gleði þessa dagana. Ég er hamingjusöm, ekkert endilega vegna þess að allt gengur vel. Það er fullt af vandamálum í kringum mig, þau bara stjórna ekki líðan minni lengur. Ég finn fyrir hamingju ALLTAF, líka þegar mér leiðist.
Ég er alltaf að sjá og finna betur og betur að fyrir mig er hamingja, state of mind. Ég hef í dag aldrei átt eins lítið af efnislegum hlutum, ákvað í fyrra að ég vildi ekki lengur vera þræll efnislegra hluta., sem ég var. Það að eiga hús og allt of mikið af dóti, tók frá mér orku, að ég tali nú ekki um tímann sem fór í að ditta að og að borga herlegheitin. Við hjónin tókum þá ákvörðun að selja allt sem við töldum okkur geta verið án, og gera sem mest af skapandi hlutum og viti menn, höfum ekki séð eftir því eina mínútu. Við tók gífurleg frelsis tilfinning. Auðvitað er ekkert að því að eiga efnislega hluti, ég var bara of upptekin af því. Það er svo margt annað í veröldinni sem gleður mig meira.
Nú svo versnar heilsan með hverju árinu, en ég verð glaðari. Ef ég væri hestur væri búið að skjóta mig. Ég skakklappast þetta einhvernvegin áfram kvölum kvalin, með bros á vör. Eitthvað er orðið lítið um brjósk á milli liða í hryggsúlunni, nú ég er með lungnaþembu, liðagigt, síþreytu, vefjagigt svo fátt eitt sé nefnt. Get ekki tekið nein verkjalyf nema íbúfen annað slagið, því ég er með óþol fyrir morfín skyldum lyfjum, og handónýtan maga, svo ég get ekkert annað gert en að tækla þetta á gleðinni. Enda breytist boðefnaframleiðsla heilans við hlátur og gleði, ég framleiði mitt eigið heimatilbúna verkjalyf. Svo vindur þetta enn frekar upp á sig. Vegna þess hversu glöð og sátt ég er, umber ég verki og vanlíðan mikið betur.
En að baki þessari góðu líðan liggur líka blóð, sviti og tár. Þetta heltist ekkert yfir mig eins og heilagur andi einn góðan veðurdag. Ónei. Ég hef farið til heljar oftar en einu sinni og dvalið þar. Kynnst mannlegri eymd á margan hátt, bæði hvað mig varðar og aðra. Ég hef verið lamin pínd og kvalinn árum saman. Ég hef gert skrilljón mistök, elskað, misst. Ég hef erfiðað á mestan hluta ævinnar , komist tvö skref áfram og nánast alltaf eitt afturábak, Ég hef glímt við ótrúlegustu veikindi hjá mér og mínum.
það sem ég hafði upp úr krafsinu var getan til að vera hamingjusöm no matter what. Ég að sjálfsögðu finn fyrir öllum litbrigðum tilfinningaskalans, sorg, söknuði, tilhlökkun, væntumþykju, reiði og svo framvegis, ég hins vegar hef miklu meiri stjórn á því hvaða tilfinning fær að vera ríkjandi.
Ég elska að vera til, er í pollýönnu syndromi alla daga og hef ekki hugsað mér að breyta því. að sjá tilbrigði í veðrinu, lesa góða bók, spjalla við samferðamenn, að upplifa leiða, einsemd, söknuð, tilhlökkun, og vonbrigði. Það segir mér að ég er á lífi. Einhverjum kann að þykja þetta vera einfeldni, barnaleg afstaða. En trúið mér, ég hef reynt að horfa á veröldina í gegnum gleraugu kaldhæðni, hroka, þjáningar og sjálfsvorkunnar. Ég hef reynt að taka töffarann á lífið. Ég hef reynt að öskra, andskotans, reiðast, ræða, grenja og ég veit ekki hvað, ekkert af því skilaði neinu fyrir mig nema meiri vanlíðan og þreytu.
Ég hef lært að setja mörk, bæði mér og öðrum. Ég nenni ekki orðið að æsa mig yfir fánýtum hlutum. Ég hins vegar ber hag allra í heiminum fyrir brjósti mér. Ég get grátið yfir örlögum bláókunnra manneskja hinumegin á hnettinum. Ég styð réttindabaráttu þeirra sem verða fyrir ofsóknum og rasisma af einhverju tagi. Allir eiga rétt á mannsæmandi lífi. Fyrir mér er veröldin eins og stór garður, fullur af margvíslegum og litskrúðugum plöntum, sumar eru einstakar, allar eru mikilvægar í því að mynda þennan garð og ég er þakklát fyrir að fá að vera meðal þeirra.
Elskurnar eigið góðan dag, og njótið lífsins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
Húsráðandi á harðahlaupum, yfirferð, og FRÍ !!!!!
19.10.2007 | 21:33
Fara Eystland ( más í astmasjúklingi ) hringja bjöllu ( innsog ) lengi, lengi ( meira más ) rúta fara, ( stuna ) gleyma veski ( og enn meira más ) pening. Að svo sögðu sá ég í iljarnar á henni út úr húsi, þar sem hún hljóp, ( skoppaði ) í áttina að umferðarmiðstöðinni. Reikna með því að hún hafi náð, hef allavega ekki heyrt í henni síðan.
Í dag var yfirferð í málunarkúrsinum og ég var mjög sátt við kríttíkina sem ég fékk. Framundan er viku frí sem ég ætla að nota í vinnu, og smááá ferðalög, klára ritgerð og læra Finnsku. Humm, voða hljómar þetta eitthvað mikið. Fer eftir helgi til Helsingi, í heimsókn í óperuna og svo til Turku þar sem ég ætla heimsækja Paulu vinkonu. En þar sem ég er ein heima um helgina, ætla ég að nota tækifærið og skutla mér í þetta fína nuddbaðkar, án hjálpar húsráðanda.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
Loftslagsbreytingar ógna friði í heiminum. ( fyrirsögn af mbl.)
18.10.2007 | 20:28
Nóbelsverðlaunin sýna að loftslagsbreytingar ógna friði" | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Villtur dans, innkaupakarfa og fleira.
17.10.2007 | 22:51
Það er orðin kúnst að ganga um eldhús húsráðanda þessa dagana. Þegar ég kem niður í eldhús á morgnana byrja ég iðulega á sama verkinu, AÐ LOKA ELDHÚSSKÁPUNUM, svo ég slasi mig ekki, annar hver skápur og önnur hver skúffa stendur nefnilega opin.
Því næst leita ég að kaffikönnunni, hef eiginlega snúið því upp í leik. Spyr mig spekingslega og klóra mér í hökunni, hvar skyldi hún hafa skilið hana eftir núna? Fann hana síðast inni á klósetti
Við þetta bættist svo ný þraut um helgina, og það er að sveigja framhjá drulluklessu sem hefur fengið að vera óáreitt á miðju eldhúsgólfinu. Sá blettur kom til af því, að eftir saunaprtýið góða um helgina. Þá fengu þær kellur sér að borða. Vinkona húsráðanda hafði opnað síldarkrukku og eitthvað hafði lekið á gólfið, hún hins vegar tók ekkert eftir því og steig galvösk í sullið.
Þar með hófst æðisgengnasti dans sem ég hef á ævi minni séð. Þetta atriði var hreinlega eins og úr teiknimynd,haha. Hendur fleygðust til og frá, fætur skvettust í óeðlilegar stöður, höfuðhnykkir þannig að ég hélt hreinlega að þetta væri ekki hægt og svo stóð þessi dans yfir í óratíma. Fyrir rest endaði konan á hillum sem voru á einum veggnum og náði á svipstundu að breyta allri uppröðun þar.
Innihald síldarkrukkunnar lá nú allt á gólfinu, og hvað haldiði að kellur hafi gert? jú teygðu sig í handklæði sem þær höfðu notað til að þurrka sig eftir saunabaðið og þurrkuðu slubbið upp með því. En þar sem engin þeirra var allsgáð, þá varð hluti eftir á gólfinu og hefur fengið að þorna og klístrast óáreittur síðan. ýmislegt annað hefur svo sem fengið að festa sig við klessuna, eitthvað úr sokkum húsráðanda t.d. því hún lætur nú ekki eina drulluklessu hræða sig og stígur óhikað í hana. Okkur hinum íbúum hússins finnst orðið fróðlegt að sjá hana breytast dag frá degi, og svo er það eiginlega orðið rannsóknarefni hversu vel húsráðandi þolir að hafa þetta þarna.
Hún kom hins vegar færandi hendi, þegar hún kom heim í dag. Hafði farið á þetta fína námskeið í Ítalskri matargerð og kom heim með afganga sem hún vildi ólm gefa okkur skiptinemum. Með góðum vilja og mikilli einbeitingu var hægt að finna bragð, en að ég kæmi því fyrir mig hvað það gæti verið var hins vegar erfiðara.
Annars fannst mér hún miklu flottari heldur en maturinn sem hún bauð uppá, þar sem hún rigsaði inn um dyrnar, með innkaupakörfu á hendinni. Karfan er merkt í bak og fyrir stórum súpermarkaði hér í grenndinni. Þetta notar hún hins vegar eins og aðrar konur nota veski. Finnst það svo fjári einfalt, þarf ekkert að gramsa til að finna hlutina, kíkir bara í körfuna og finnur það sem hana vantar.
Ég ætla hins vegar að notast við töskur og veski áfram.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Af tilfinningasemi.....
15.10.2007 | 18:35
Það sem ég er í mikilli þörf fyrir tilfinningalega nánd, gerði mér eiginlega ekki grein fyrir því hversu mikið ég virðist snerta fólkið mitt og vini fyrr en ég var búin að vera einhverjar vikur hérna í Finnlandi.
Það verður víst seint sagt um Finna að þeir séu eitthvað að kafna úr tilfinningasemi. Fékk staðfestingu á þeirri skoðun minni í tíma í dag. Kennarinn sem fræðir okkur um menningu Finna var að segja okkur frá rannsókn sem var einu sinni gerð á því hversu mikið pláss fólk þarf í kringum sig án þess að líða illa.
Spánverjar, Ítalir og einhverjir fleiri, þurfa að hafa um 70cm á milli sín. Þeir elska að snertast, faðmast og kyssast. Finnar þurfa hins vegar um 170cm, viljið þið spá! Það sem þeim finnst þeim vera þægileg fjarlægð, finnst mér varla vera kallfæri.
Máli sínu til stuðnings tók kennarinn dæmisögu af tengdaföður sínum og dóttur hans ( sem sagt eiginkonu sinni) Fyrir einhverjum árum síðan hafði hún farið til Ítalíu sem skiptinemi og dvaldi þar í eitt ár. Kennarinn tók það fram að mjög kært væri með þeim feðginum og sagði samband þeirra náið. Nú eftir árið kemur konan heim og faðirinn bíður með eftirvæntingu á brautarpallinum. Hvernig haldið þið svo að móttökurnar hafi verið? jaa ég veit allavega hvernig ég hefði tekið á móti ástvini. Ég hefði farið á handahlaupum upp hálsinn á viðkomandi og kysst og kjassað, óað og jæað. Pabbinn hins vegar rétti dóttur sinni höndina, horfði fast í augun á henni og það örlaði fyrir brosi. Dóttirinn lifði lengi á þessari minningu, pabbi hennar hafði ekki sýnt slíka viðkvæmni og tilfinningasemi síðan hún var lítil stelpa.
Fái Finnar sér hins vegar í glas eru þeir eins og blóðheitasta latínofólk . Þeir opnast upp á gátt og engu líkara er enn að þeir hafi verið bestu vinir þínir frá fæðingu. Ég varð vitni að því á föstudaginn var þegar ég fór á grímuball. Mér fannst það frábært og vel til fundið að brjóta ísin svona og hrista nemana saman. Þegar ég hins vegar kom í skólann í morgun var eins og þetta grímuball hefði aldrei verið haldið. Kennarinn kom svo sem inná þessa hegðun samlanda sinna og hughreysti okkur með þeim orðum að þeir væru bara svona, þetta væri inngróið í þjóðarsálina.
Æi mætti ég þá frekar biðja um tilfinningasemi
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)