Erfðiður dagur, og Krumma sorgmædd.

Það var skrítið að koma í skólann í morgun. Nemendur og kennarar gengu um álútir og sumir með rauða hvarma. Fólk talaði í hálfum hljóðum og sumir ekki neitt. Það eru margir í sjokki eftir atburði gærdagsins.

Þegar ég kom í vinnustofuna mína lá orðsending frá skólayfirvöldum á borðinu. Þar voru atburðir raktir, og forsaga þess drengs sem framdi þennan voðaverknað og samhliða  var boðið uppá viðtal fyrir þá sem töldu sig þurfa þess með. Klukkan eitt var svo haldin kyrrðarstund í fyrirlestrasal skólans til að minnast látinna, þar var búið að kveikja á kertum og róleg tónlist var spiluð. Margir innan skólans þekkja til þar sem þessi voðaatburður átti sér stað og einhverjir eru tengdir aðstandendum fórnarlamba. Enda er þessi staður ekki nema í hálftíma fjarlægð frá Lathi.

Samkvæmt bréfinu sem ég fékk var þessi drengur afburðarnemandi og vel greindur. Síðustu vikur og mánuði sýndi hann samt þannig hegðun og talaði á þann hátt  að fólk sem hann var í sambandi við var farið að taka eftir því að það væri ekki allt með felldu.

Í fréttum er verið að tala um skólakerfið og hvernig þetta brautarkerfi/ kúrsakerfi geri það að verkum að erfitt er fyrir kennara að fylgjast með nemendum. Það er mun auðveldara þar sem bekkjarkerfi er í notkun,  mér finnst mikið til í því. Þessi drengur þráði að tilheyra einhverjum hópi, að finna að ætti samleið með fólki, að eiga vini.

Í brautarkerfi er því þannig farið að sami nemandi getur verið með ákveðnum einstaklingum í einu fagi 2-3 í viku og svo aðra tíma með allt öðru fólki, það gefur auga leið að það er miklu erfiðara að eignast vini og finna öryggistilfinningu við þannig aðstæður.

Umræður meðal starfsfólks skólans í dag snérust um mikilvægi þess að veita nemendum athygli og að taka mark á þeim merkjum sem oft eru til staðar áður en slæmir hlutir eiga sér stað. Kennarar sögðu mér t.d. frá því að fyrir u.þ.b. 4 árum síðan var skúringakona í mínum skóla að þrífa borð hjá einum nemanda og rak þá augun í pappíra á borðinu sem henni fannst í hæsta máta óhuggulegir og óeðlilegir, bæði var um að ræða texta og teikningar. Þar var lýst samskonar aðgerðum og áttu sér stað í gær. skúringakonan lét bæði lögreglu og skólayfirvöld vita og var viðkomandi nemanda komið til hjálpar. Ég fékk óþægindatilfinningu við að heyra þetta, svona hryllingur eins og átti sér stað í gær gæti hafa gerst í mínum skóla.

Í morgun þegar ég og  Kristí  ( býr í sama húsi og ég)  vorum að fara í skólann, fann hún hvergi skóna sína, við snérum húsinu á hvolf en allt kom fyrir ekki, skórnir höfðu gufað upp! Til  allrar lukku var hún  með annað par. Svo þegar ég kem heim í dag segir húsráðandi mér það að rán hafi verið framið í húsinu okkar um nóttina. Einhverjum verðmætum var stolið  þar á meðal skónum, og veski húsráðanda með öllum hennar kortum, skilríkjum og peningum.  Húsráðandi hringdi í lögreglu og í ljós kom að kortin voru notuð í stórmarkaði hér í grenndinni. Hún veit hver það var sem braust inn, því sá aðili hefur gert það margsinnis áður. Húsið virðist vera vaktað og svo er látið til skarar skríða um leið og allir fara í ból. Við nánari athugun sáum við líka að gengið hafði verið inn á grútskítugum skóm og víða mátti sjá trjálauf. Ég verð að viðurkenna að mér stendur orðið ekki á sama, er eiginlega hálf hrædd. Ég get ekki einu sinni læst að mér því það er ekki til lykill að hurðinni. 

Æ ég er sorgmædd í dag, finn áþreifanlega fyrir því hvað margir eru orðnir sjúkir. Svo hef ég mikið hugsað um elskulega frænda minn hann Hauk, sem lést fyrir árin síðan, ég veit að mamma hans, systir mín hefur átt erfiðan dag. Þann 10 nóvember ætlar dóttir mín og vinkona hennar að flytja lag í laugardalshöllinni, sem ég samdi og tileinkaði Hauki. Þetta eru ótrúlegar stelpur, það er ekki lítið að vera 15 ára og troða upp í fyrsta sinn og það í laugadalshöll.

Crying síjúgæs.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Jóhannesdóttir

ÚFF Hrafnhildur, ég er nú bara smeyk fyrir þína hönd

sendi þér hlýja strauma vinan

Knús.

Gunna 

Guðrún Jóhannesdóttir, 9.11.2007 kl. 00:55

2 identicon

Úfff. Settu stól og kommóðu fyrir dyrnar hjá þér.Óhugnarlegt ástand. Stelpurnar eru í Séð og Heyrt ,nýjasta blaðinu. Þær eru æðislegar. Fallegar og yndislegar. Og ég í feitasta væmniskasti ever. Í lok bænargöngunnar á Austurvelli les ég upp það sem Haukur bað um að sett yrði á krossinn sinn.Og svo stelpurnar með lagið þitt um kvöldið. Siggi Ingimars bauðst til að singja á minningardiski um hann og gefa hann út í vor. Það er frábært að eiga svona yndislegt fólk að

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 9.11.2007 kl. 10:15

3 Smámynd: Hlynur Hallsson

Gangi þér vel Krumma. Þessir atburðir eru óhugnanlegir og sorglegt þegar svona gerist aftur og aftur, og núna svona nálægt. Bestu kveðjur,

Hlynur Hallsson, 9.11.2007 kl. 13:20

4 Smámynd: Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir

Það var eitthvað lítið um svefn í nótt hjá okkur íbúum hússins, bæði vegna atburðanna í skólanum og eins vegna innbrotsins. En við reynum að stappa stálinu í hvor aðra life goes on.

Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 9.11.2007 kl. 13:27

5 Smámynd: Fríða Eyland

Horfðu til himins og finndu innri styrk. Sorgin er allt um kring, óhuggulegt, hræðilegt og svo nærri hlýtur að vera ólýsanlegt, kláraðu það sem þú ert að gera. Notaðu tímann, ekki falla í djúpa dali sorgarinnar. Styrkur þinn er mikill, og hann nýtist betur í annað.

Og sjálfsmyndin þín er frábær ...

 

Fríða Eyland, 9.11.2007 kl. 19:31

6 Smámynd: Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir

Takk Fríða mín, er að jafna mig, ætla einmitt að vinna eins og brjáluð fram að brottför.....og takk fyrir hrósið.  Hugmyndin af þessari sjálfsmynd kom til af svo mörgu, meðal annars vegna þess að Steingrímur St.H  Sigurðsson heitinn myndlistarmaður sat einu sinni sem oftar með mér á kaffihúsi, hann var mikið fyrir kvenfólk og vildi ólmur fá að mála mig nakta, ég var hinsvegar ekki alveg til í það þannig að okkur samdist svo um að hann fengi að mála á mér annað brjóstið hann hinsvegar dó stuttu síðar svo þessi mynd er í þeim anda sem talað var um. Svo greindist ég með æxli í brjósti og þurfti að fjarlæga part af brjóstinu, ég er að kveðja það. Svo má finna skírskotun í margt annað. Myndgæðin eru ekki nógu góð í tölvunni en í raunveru sést blika tár á hvarmi. Bestu kveðjur. Og Fríða mín hvenær fæ ég að sjá mynd af þér?

Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 9.11.2007 kl. 19:58

7 identicon

hæ mamma mín, ég vildi bara kasta á þig kveðju. Hlakka til að fá þig heim  emilía mín sá mynd af þér í gær og hún var svo glöð mamma þetta er amma mín núna man ég hvernig hún leit út ég mun þekkja hana þegar hún kemur. Greyið er búin að vera svo dugleg að bíða eftir ömmu sinni og hún á eftir að sýna þér svo mikið segir hún, amma er örugglega búin að gleyma hvernig allt lítur út á Akureyri. Við Viðar vorum að koma af kistulagningunni og jarðarförin er á morgun það var frekar erfitt að koma inní kirkju og fara á kistulagningu minnti mann svo á þegar jarðarförin hjá Hauk var. En á morgun verður fallegur dagur og góður litla systir mín að spila og það vegna góðs málefnis til að minnast þeirra sem hafa þurft að ganga þyngri og erfiðari spor heldur en aðrir í lífinu  

Jæja við vildum bara kvitta og segja við elskum þig og söknum svo mikið. Kv Selma, Emilía og litli bumbuálfurinn

Selma Klara og Emilía Ýr (IP-tala skráð) 9.11.2007 kl. 22:49

8 Smámynd: Ragnheiður

Elsku Krumma...ég skil vel að þér líði svona, þegar maður er nærri slíkum atburðum þá hljóta þeir að hafa á mann áhrif.

Kær kveðja til Finnlands

Ragnheiður , 9.11.2007 kl. 22:54

9 Smámynd: Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir

Ég hlakka alveg brjálæðislega til að koma heim og knúsa ykkur selma mín. Skilaðu kveðju til Vidda og foreldra.

Ragnheiður.... takk fyrir hlýjar kveðjur. Maður er svolítið eins og í rússíbana hvað varðar tilfinningalífið, en þetta jafnar sig..... eins og allt annað, hef svo sem séð það svartara og upplifað mikið erfiðari hluti.. ótalsinnum. Er eiginlega feginn að þetta hafi áhrif á mig, er þá ekki orðin samdauna hörmungum heimsins. 

Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 9.11.2007 kl. 23:38

10 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Hæ elsku Krumma, ég dáist að þér fyrir að hafa haldið geðheilsu í húsinu eftir allt sem á undan er gengið.  Þú ert töffarakona.  Kúl og flott.

Jenný Anna Baldursdóttir, 11.11.2007 kl. 00:56

11 Smámynd: Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir

Jenný mín ég er óðum að hressast, var hinsvegar verulega sleginn fyrst eftir skotárás og innbrot, en tækla þetta á æðruleysi og húmor eins og allt annað sem á fjörur mínar rekur í þessu litla yndislega lífi.....

Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 11.11.2007 kl. 01:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband