Færsluflokkur: Lífstíll

Úr einu í annað.....

Hvernig stendur á því að mér finnst tíminn líða mikið hraðar á sumrin? Ekki er það það að mér finnist eitthvað skemmtilegra þá því mér finnast aðrir árstímar ekki síðri. Síðustu ár þegar skóla hefur verið að ljúka hjá mér hef ég sett saman laaaaangan lista um allt það sem ég ætla gera það sumarið, en svo um mitt sumar verð ég alltaf jafn undrandi á því að flest það sem fór á listann góða er þar enn......jafnvel frá ári til árs.

Ég er að gera of marga hluti í einu, veð úr einu í annað, það er bara svo margt sem ég hef gaman af að erfitt er að velja, 

ég er þekkt fyrir að sanka að mér efnum og flíkum af flóamörkuðum og svo sit ég og sauma og hanna, finnst frábært að búa til nýja flík,tösku eða hvaðeina annað sem mér dettur í hug,

nú svo hef ég brjálæðislega gaman af því að prjóna, virkar oft á mig eins og hugleiðsla,

ég hef heldur ekki tölu á öllum þeim húsgögnum sem ég hef hirt og gert upp eða breytt í aðra mublu, nú og svo er það auðvitað aðalástríðan að mála og gera skúlptúra....ég þyrfti helmingi lengri tíma í sólarhringinn ef vel ætti, að vera.

Ég tala nú ekki um þessar vikurnar þar sem ég þarf stanslaust að vera að pæla í því hvað ég þarf,og hvað ég má borða, það er bara meira en að segja það að hætta reykja og fara í stíft matarprógramm, ég er þó farin að finna árangur, konan getur orðið hjólað og gengið upp stiga án þess að hljóma eins og gamall físibelgur, nú svo minnka ég hverri vikunni sem líður, einmitt eins ég á að gera Wink

Síðustu daga hef ég verið með heimþrá til Finnlands, langar svo að fara í nokkurra daga frí þangað með húsbandinu mínu, ég fengi örugglega að gista hjá þeirri sem ég dvaldi hjá þegar ég var í skólanum, og ég hefði alveg örgglega krassandi sögur að segja við heimkomuna.

framundan eru breytingar hjá okkur á heimilinu, húsband fer að taka við nýju starfi sem krefst þess að við tökum upp fjarbúð, eigum tvö heimili. Það leggst mjög vel í okkur, gerir okkur örugglega gott, skerpir ástina og hjálpar manni að fókusa á það sem skiptir máli, okkur hefur svo sem alltaf lánast að halda sjálfstæði í hjónabandinu, við reynum að lifa eins og tveir einstaklingar hvort með sínar þarfir og mikið personulegt rými..ég og húsbandið mitt

 

nema stundum...W00t

Og hugurinn reikar.....

Leti hefur hrjáð mig í dag í bland við brjálæðislegan pirring yfir reykleysi og svo finnst mér ég vera eitthvað svo ófullnægð matarlega séð…ekki það ég hef forða til að takast á við hungur….þetta er bara meira enn að segja það. Mig vantar stanslaust eitthvað......


. Í stað þess að laga til eins og ég ætlaði að gera þá hef ég legið yfir blogginu, það er margt vitlausara en það ..ég fer  í tilfinningalegan rússíbana við lesturinn

t.d las ég hjá Birgittu og sá þar hrikalegt myndband sem ég reyndar grét yfir…af sorg og reiði,.mannvonskunni eru enginn takmörk sett

…sveiflaðist frá þeirri tilfinningu yfir í væntumþykju, las nefnilega  hjá Svani…hann er í sérstöku uppáhaldi, fullur af visku og fróðleik, kynntist honum fyrst þegar ég var 13 ára og hann hafði mikil áhrif á líf mitt þá og einnig seinna á lífsleiðinni....

sveiflaðist þaðan og yfir í hlátur hjá henni Jenný sem líka er í uppáhaldi, djöfull sem hún getur verið fyndin konan…

las hjá Hönnu Láru sem gerir það sem ég vildi vera gera en hef ekki tíma til, mér eru þessi mál, þ.e. umhverfismál mjög hugleikin, frábært framtak hjá henni ,…skrif bloggvina minna snerta mig öll á einhvern hátt og eru sem betur fer fjölbreytt það er það sem er svo dásamlegt við lífið….fjölbreytileikinn


Annars var ég á Sigló um helgina í góðu yfirlæti hjá vinum og fer þangað aftur í vikunni, þjóðlaga hátíðin verður sett á miðvikudag og það er skemmtileg og flott dagskrá sem þeir hafa sett upp….ég er búin að skrá mig á námskeið…austrænan trommuslátt og raddspuna….það verður æði..
En nú er ég farin að sinna öðru……..


jei....önnur sjúkdóma færsla.....

Hún Jenný Anna bloggvinkona talar um aldur í einni færslunni....ég hef nefnilega líka verið að hugsa um aldur...kemur ekki til af góðu.

stend nefnilega frammi fyrir því að vera komin með kvilla og sjúkdóma sem herja oftast á fólk sem er mér miklu eldra...sjálf er ég ekki nema 42 ára  

nú svo fer að birtast hér hver sjúkdómafærslan á fætur annarri....það er ekki bara að hægðir séu orðnar áhugamál heldur sjúkdómar líka....W00t

síðast skrifaði ég um síþreytu, vefjagigt og heilaþoku

í gær fékk ég niðurstöður úr blóðrannsókn......

konan er á byrjunarstigi sykursýki og með blóðfitu 21.....á meðan Jón og Gunna eru með 0,75-2,5 í blóðfitu...ég sigli hraðbyri í hjartaáfall...

biluð innkirtla starfsemi heitir þetta....

nú er allt bú sem inniheldur einhvern sykur og fitu...

hámark spennunnar fyrir mig verður að ákveða hvort snæða skuli spínat eða kál í kvölmat....W00t

er nema von að mér finnist ég vera farin að eldast.....

er farin að prjóna leppa.....ætla senda jenný eitt par, þetta ku vera svo notalegt í fótlaga skóna....hehe 

IMG 1219

 

 

 

 

 

hér er sjúklingurinn að vinna.......


Heilaþoka....

Ég eins og svo margir aðrir er greind með síþreytu og vefjagigt,.... hundleiðinlegur sjúkdómur sem sést ekki á manni og ekki er hægt að lækna..

Að öllu jöfnu er ég sæmileg...svona tveim tímum eftir að ég vakna en svo koma tímabil þar sem ég get varla greitt mér fyrir þreytu, ég verð undirlögð af verkjum og svefninn fer í klessu.

Ég hef ekki hugmynd um hvað kemur þessum köstum af stað né hve lengi þau vara, en fram að þessu hafa þau gengið yfir svona á endanum.

Einn af mörgum fylgikvillum sem fylgja köstunum er heilaþoka Sideways....þeir sem eru með vefjagigt vita hvað ég er að tala um... 

maður sofnar að kveldi ( ef maður er heppinn ) W00t með áætlun yfir verkefni næsta dags en vaknar svo að morgni eins og maður hafi verið í partý í viku og man ekki neitt....

ég hef undanfarið verið í svona ástandi.....ákvað að ég þyrfti að skreppa í búð, arkaði inn einbeitt á svip, staðnæmdist  út á miðju gólfi, horfði í kringum mig .....hvern andskotann ætlaði ég að kaupa??'  hugs hugs hugs....ætla seilast eftir töskunni það er smá von um að ég hafi skrifað eitthvað á miða....nebbb enginn taska og ekkert peninga veski...bara sími.

Hringi í miðjubarn...sem kemur eftir einhverja stund með veski og getgátur um hvað ég hafi ætlað að versla....

hitti í röðinni fólk sem ég veit ég á að þekkja en man ekki hvað heita.....þó mundi ég það í vikunni á undan og gott ef ég heilsaði þeim ekki með nafni þá....

rogast út í bíl með marga innkaupa poka set í gang og fáta í tökkum...þaklúga opnast, finn annan takka hliðarrúða opnast...rek mig í þurrkurnar sem ískra eftir þurrum rúðunum....er komin í panik yfir  fátinu á mér...stíg á bensínið og potast á móti umferð útaf bílastæðinu..fæ augnaráð frá öðrum bílstjórum...ek sem leið liggur heim en fer auðvitað lengstu leiðina því ég allt í einu sé ekki fyrir mér styðstu leiðina....

púff ...rogast inn með pokana og í því sem ég tek uppúr þeim sé ég að ég hef keypt fjóra fulla haldapoka.....uuhhhh?????

jú ég er ein heima....Blush 

 

 


reykleysi og naflaskoðun....

Ég væri að ljúga ef ég segði að síðustu vikur hefðu verið auðveldar.....ég er dag eftir dag að kljást við sterka tóbakslöngun...samt langar mig ekki að vera reykjandi.....ég vona svo sannarlega að ég komist yfir þetta en veit þó að það tekur tíma. Kannski hefur þetta verið verra því ég hef verið veik undanfarið og allar varnir litlar..en mér er þó að batna...

reglulega leggst ég í naflaskoðun sem er að mínu mati ein besta leiðin til að lifa betra lífi....og sé og finn alltaf betur og betur hvað það skiptir miklu máli að maður standi með sjálfum sér..sé trúr og tryggur því sem maður er, sé ekki að þykjast vera eitthvað annað... að maður elski sjálfan sig..

Mér hættir til að gera alltof miklar kröfur til sjálfrar mín...krefst þess að ég sé fullkomin á öllum sviðum, það er erfitt að lifa eftir því..þá hættir lífið að vera skemmtilegt og stress og kvíði taka völdin

besta lækningin fyrir mig er húmor

hann lengi lifi......Wink

 


33 ára samvist lokið....

Ég kynntist henni sem barn....varð háð henni um 10 aldurinn og  hún hefur fylgt mér hvert sem er

stundum verið styrkur en líka oft verið til  ama og trafala 

Hún hefur hægt og rólega verið að drepa mig

ég er komin með sjúkdóma af hennar völdum

en nú er ég hætt...finido... ég sagði henni upp

jú...ég er hætt að reykja WizardWizard

húrra fyrir mér...ég væri að ljúga ef ég segði það auðvelt....ég er geðstirðari en andskotinn

hringi út um allar trissur og rífst yfir öllu...hef líka komið mörgum málum í gegn sem hefði ekki gengið svona fljótt fyrir sig annars..W00t

Húsband er í margra daga vinnuferð um landið, kemur heim í mýflugumynd eftir nokkra daga og ríkur þá til útlanda á ráðstefnu...hann tók utan um mig og kyssti mig þegar hann fór og sagði....ég elska þig...en mikið svakalega er ég feginn að vera ekki heima næstu dagana...Tounge jú ég skil hann, ég er líka feginn,hann þarf þá ekki að tipla á tánum í kringum mig næstu dagaDevil

en svo auðvitað fer þetta batnandi..... 

meira að segja börnin eru að heiman....miðjubarn vinnur í mývatnssveit og sú yngsta er að leggjast í ferðalög næstu daga, þannig að ég ætla fá útrás á striganum...mála eins og vitfirringur í orðsins fyllstu....

Ég hef gefið vinum mínum og mínum nánustu  leyfi til að sparka í sköflunginn á mér...setjast ofan á mig...binda mig niður, beita öllum þeim ráðum sem þeim dettur í hug ef það svo mikið sem hvarflar að mér að fá mér sígó

djö.....sem ég er ánægð með mig.... 

 

 


Skólalok og Okur...

Jæja þá er skólinn búinn og ekki laust við að maður sé hálf tómur á eftir...ekki það að ég mun hafa nóg að gera í sumar, var boðið að sýna í stúdíótímavél sem er ansi stórt og mjög skemmtilegt húsnæði og svo þarf ég að klára nokkur verk sem hafa verið pöntuð....

Ég sá í mogganum í dag að Dr. Gunni hlaut Íslensku neytendaverðlaunin....ég vona svo sannarlega að fólk fari að vakna og hætti að taka þátt í okrinu. 

Gunni segir" Mörgum finnst að það sé eins konar merki um aumingjaskap að kvarta yfir okrinu. Að maður sé geðveikt smámunasamur ef maður minnist á mismun merkingar í búð og verðs á kassa. Að það sé einhverskonar merki um það hve vel maður stendur í lífinu að kaupa oststykki á 1.400, kjúklingabringur á 3.000, og gallabuxur á 27.500 án þess að blikna. Ég er flottur! "Mér er alveg sama þótt það sé okrað á mér,"er mottó allt of margra."Dr Gunni lauk ávarpi sínu á orðunum:" Okur á Íslandi er ekki náttúrulögmál. Ef þú lætur ekki okra á þér verður ekki okrað á þér."

Ég gæti ekki verið meira sammála manninum, það er engu líkara en að Íslendingar séu að kafna úr komplexum og minnimáttarkennd....þurfa berast á.....

Ég gekk inn í nýja barnafataverslun á Akureyri fyrir nokkrum dögum síðan...ætlaði að finna eitthvað handa nýja ömmubarni,...afgreiðslukona/eigandi kom til mín og bauð fram aðstoð en þá hafði ég í þann mund litið á verðmiðana og sagði " nei takk og veistu hvað,? ég mun líklegast aldrei koma hér inn aftur því ég ætla ekki að taka þátt í þessu okri" Við erum að tala um að ermalaus kjóll á nýbura kostaði nálægt 7000 krónum og sokkabuxur um 5000 kr..... með það labbaði ég út og fór og verslaði annarstaðar á margfalt lægra verði. Og ég ætla taka mig enn frekar á, fara bera saman hilluverð við strimil....verð semsagt leiðinlegi neytandinn....er einhver með????


Eintóm hamingja......

Þetta er nú meiri dýrðarinnar dásemdar dagurinn....það var glampandi sól og 10 stiga hiti í dag.

Húsband reif sig upp fyrir allar aldir og fór út að hlaupa með hlaupahópinn sinn...var svo uppveðraður eftir það að hann rauk beint í tiltekt eftir að hann kom heim...ég vaknaði við skarkalann og ilmandi kaffilykt, mikið sem ég elska laugardaga það er svo gott að geta tekið því rólega, flett blöðum spjallað við húsband og drekka saman morgun kaffi

Við skelltum okkur svo í bæinn um miðjan daginn..kíktum á kaffihús og nokkrar myndlistar sýningar

Nú erum við farin að telja niður í klukkutímum eftir að nýja barnabarnið komi í heiminn..móðirin er lögst inn á sjúkrahús og verður skorin á mánudagsmorgun...hlakka alveg svakalega til InLove

 

 


Sprautur, nömm og köff.....

Ég hentist upp á sjúkrahús í morgun til að fara í baksprautur....kom við í vinnunni hjá húsbandi og kippti honum með, hann skyldi  sko horfa upp á þjáningar mínar og vera mér til halds og trausts, ekkert fútt í að þjást einn.

Gekk kokhraust inn á röntgen en var komin með angistarsvip þegar ég var lögst á fjölina undir tækinu.

Hik kom á lækninn þegar hann snaraðist inn og  sá húsband standa þarna, haldandi í höndina á mér eins og það væri að fara fram aftaka og sagði: uuuu ummm sko .......hafðu stól nálægt þér góurinn, við höfum allt of oft fengið hér inn hugprúða menn sem hníga svo í gólfið þegar ég byrja að stinga, hef meira að segja þurft að sauma þá saman eftir að vera búin að sinna sjúklingnum.

Húsband lét sér hvergi bregða enda öllu vanur maðurinn, leyfði mér að kreista á sér höndina þegar læknir fór að stinga, hann kreisti bara á móti svo ég myndi ekki handarbrjóta hann og strauk mér svo um kollinn eins og litlu barni.

Þegar ég hökti svo út í bíl á eftir fór hann óðamála að lýsa fyrir mér hvað þetta hefði nú verið magnað, þú hefðir átt að sjá nálina, hún var svona löng( handarhreyfing) og hann var svo öruggur, stakk og rakst á bein en færði þá nálina þangað til hún var komin á sinn stað og þetta gerði hann SEX sinnum!!!!  að hann skyldi ekki stinga í gegnum þig......... ég horfði á hann grimmum augum...... heldurðu að þetta hafi farið fram hjá mér?????

Nú nýt ég þess að liggja fyrir og láta stjana við mig, allt samkvæmt læknisráði....ét nömm, drekk köff  og horfði á vídeó

What a life.....Wink

Næturblogg....össur hvað......

Nú geri ég eins og össur....blogga um miðja nótt. Ég er greinilega orðin of þreytt, þá á ég það til að geta ekki sofnað, næ mér ekki niður. Enda verið í botnlausri vinnu frá morgni og fram á nætur. Það sem liðið er af nóttinni er ég er búin að lesa í námsbókunum og lesa bækur um listamenn, borga reikninga í heimabanka og sitthvað fleira, ætlaði að grípa símaskránna og vita hvort ég myndi ekki sofna út frá henni en mundi þá eftir því að ég hef ekki haft neinn tíma til að blogga, svo auðvitað dríf ég í því núna.

Síðustu vikur hef ég verið í 5 vikna skemmtilegum kúrs, þar sem við eigum að búa til videó verk eða hljóðverk. Ég hef setið með sveittan skallann og stúderað tölvur og klippi forrit og margsinnis óskað þess að ég gæti töfrað Betu Ronalds til mín, hún væri sjálfsagt ekki lengi að kenna mér þá list.

Ég tel orðið niður dagana fram að páskafríi, langar svo að eyða meiri tíma með fjölskyldunni minni og leggja fram krafta mína til heimilisins. Húsband hefur séð um innkaup, eldamennsku og tiltekt ásamt 2 dætrum...ekki það ég vorkenni þeim ekki baun, þau eru fullfær og vön, mig langar bara svo að vera með í því. Það eru oft bestu stundirnar þegar við erum öll saman í þessu, tölum mikið saman og skemmtum okkur. Nokkrum sinnum hefur þessi elska skotist í skólann með mat til mín því ég hef ekki mátt vera að því að fara heim að borða.

Nú og svo hef ég tekið góða syrpu í læknisheimsóknir.....fór til lungnasérfræðings sem sagði mér það sem ég vissi...ég er verri en síðast þegar ég hitti hann enda enn reykjandi og er á síðasta séns...á morgun verða nýju reykingalyfin leist út og harka sett í þau mál. Þar næst hitti ég meltingarsérfræðing sem gaf mér lyf gegn aukaverkunum af reykingalyfinu....eitthvað sem ekki fæst á landinu og hann fær eftir öðrum leiðum. Svo var það tannsi með tilheyrandi kostnaði og leiðindum....veit fátt leiðinlegra en að liggja í stól og gapa. Nú svo að lokum hitti ég bæklunarlækninn sem ég er búin að bíða eftir í eitt ár. Hann stakk mig mörgum sprautum neðst í bakið....þar sem ég lá á borðinu undir röntgen græjunni, kreppti ég hnúana og hvæsti milli saman bitinna tannanna. en langaði mest af öllu að sparka í hann....hvernig í ands....... datt þér í hug að velja þér þetta starf? er þetta ekki ömurlegt?   Haha heyrðist í lækni, ég er réttu megin við sprautuna.W00t Leikurinn verður svo endurtekinn eftir helgi, þá bætir hann við fjöldann, ég get ekki sagt að mig hlakki til en verð þó dauðfeginn þegar það versta er yfirstaðið þá verð ég verkja minni og þarf ekki að haltra um eins og gamalmenni þó ég stefni vonandi í þá átt að verða gömul og sæt.

Ég fékk krúttkast ársins þegar ég horfði á fréttatíma ruv í kvöld, þar kepptu gamlingjar í frjálsum 70 ára og eldri. Þvílíkir snilldartaktar hjá þessu fullorðna fólki, sá nokkur gamalmenni reyna við hástökk, stöngin var rétt hærri en dýnan en yfir komust þau.... W00t

jæja er farin í ból...heyrumst elskurnar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband